Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 7. maí um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um fjölda brota gegn eiginkonu sinni og fimm börnum.
Ekki kemur fram í úrskurðinum hvaðan fjölskyldan kemur en maður hlaut alþjóðlega vernd hér á landi árið 2022. Eiginkona hans og fimm börn komu svo til landsins í mars á síðasta ári en fljótlega flutti konan út af heimilinu og sakaði manninn um ítrekað og alvarlegt ofbeldi gagnvart sér og börnunum. Málið hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu frá 23. mars 2024.
Maðurinn er grunaður um líflátshótanir gegn eiginkonu, líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn eiginkonu og börnum, kynferðislegt ofbeldi gegn sumum barnanna, ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, umsáturseinelti og vörslu barnaníðsefnis.
Hann hefur sætt nálgunarbanni gagnvart eiginkonu frá því í mars á síðasta ári og gagnvart börnunum fimm frá júlí í fyrra. Eiginkona og börn hafa síðasta árið notið aðstoðar félags- og barnaverndaryfirvalda og Kvennaathvarfsins.
Maðurinn er grunaður um að hafa ítrekað og endurtekið brotið gegn nálgunarbanni. Meðal annars með því að elta börn sín á samkomum, staðið fyrir utan heimili þeirra og skóla, birt óhróður um eiginkonu sína á samfélagsmiðlum og sent henni hótanir.
Ógnvekjandi atvik mun hafa átt sér stað í janúar en þá hafði maðurinn birt niðrandi skilaboð og hótanir á Facebook í nafni konu sinnar. Lögregla fór í kjölfarið og leitaði í húsi og bíl mannsins og fann þar hníf, einnota hanska, klaufhamar og strigalímband.
Í mars á þessu ári sendi hann eiginkonu sinni hótun um að hún hefði klukkustund til þess að taka efni út af samfélagsmiðlum annars muni hann láta til skarar skríða, taka stóra ákvörðun og hafa engu að tapa.
Þessu til viðbótar hefur maðurinn ítrekað komið við sögu lögreglu vegna aksturs án ökuréttinda og fyrir hótanir og kynferðislega áreitni gegn konu sem ætlaði að leigja herbergi hjá honum.
Hann var handtekinn í mars vegna ítrekaðra brota gegn nálgunarbanni og í kjölfarið var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald. Við rannsókn á haldlögðum raftækjum hans fann lögregla myndir og myndefni sem telst til barnaníðsefnis auk grófs kláms.
Lögregla tók fram í rökstuðningi sínum fyrir gæsluvarðhaldi að ef maðurinn verður sakfelldur fyrir öll brot sem hann er grunaður um geti þau varðað fangelsi í allt að 16 ár. Eins hafi maðurinn sýnt að hann láti þvingunarúrræði á borð við nálgunarbann ekki stöðva sig. Eiginkona hans og börn eru afar hrædd við manninn og lögregla taldi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja fjölskyldu hans fyrir árásum.
Maðurinn taldi þó að hann hefði bætt ráð sitt, enda ekki brotið af sér eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þó hann hafi aðgang að síma og neti þar.
Dómari tók undir með lögreglu að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt til að verja fjölskylduna. Það væri engin trygging fyrir því að maðurinn væri hættur að brjóta af sér að hann hefði ekki haldið því áfram í gæsluvarðhaldinu enda væri ólíku saman að jafna að sæta gæsluvarðhaldi og því að ganga laus. Maðurinn verður því áfram í gæsluvarðhaldi til 3. júní.