Þýska innanríkisráðuneytið hefur bannað samtökin „Königreich Deutschland“ (Konungsríki Þýskalands), sem leidd voru af Peter Fitzek, og handtekið hann ásamt þremur öðrum leiðtogum samtakanna. Þessi aðgerð er hluti af víðtækri aðgerð gegn öfgahægrimönnum í Þýskalandi.
Peter Fitzek, sem fæddist árið 1965 í Austur-Þýskalandi, er fyrrverandi kokkur og karatekennari sem hefur lengi verið þekktur í Þýskalandi fyrir öfgafullar skoðanir sínar. Árið 2012 stofnaði hann „Konungsríki Þýskalands“ á lóð fyrrum sjúkrahúss í Wittenberg og lét krýna sig sem kóng við hátíðlega athöfn. Hefur hann síðan kallað sig Peter I, konung Þýskalands. Talið er að sex þúsund manns tilheyri samtökum Péturs fyrsta en frá krýningunni hafa samtökin reynt að koma á fót eigin ríkisstofnunum, þar á meðal banka, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og eigin gjaldmiðli sem kallast „Engelgeld“. Þau hafa einnig gefið út eigin vegabréf og ökuskírteini.
Fitzek hefur á undanförnum árum reglulega komist í kast við lögin og verið dæmdur fyrir hin ýmsu brot. Til að mynda fyrir að reka banka án leyfis og fyrir líkamsárás. Árið 2017 var hann dæmdur í þrjú ár og átta mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér um 1,3 milljónir evra úr ólöglegum banka sem hann rak. Þrátt fyrir þessar dóma hefur hann haldið áfram starfsemi sinni og útbreiðslu öfgafullra hugmynda sinna.
Það var raunin allt þar til að þýsk yfirvöld blésu til hinna samhæfðu aðgerða gegn „Konungsríkinu“. Alls var leitað í fjórtán eignum víða um Þýskaland og var Fitzek sjálfur handtekinn í Halsbrücke í Saxlandi, þar sem samtökin höfðu aðsetur sitt. Auk hans voru þrír aðrir leiðtogar samtakanna handteknir.
Þá tilkynnti þýska innanríkisráðuneytið að samtökin væru bönnuð vegna þess að þeim væri beint gegn lýðræði Þýskalands og að þau héldu úti ólöglegum stofnunum sem ógni réttaröryggi og samfélagslegri samheldni í landinu. Samtökin eru einnig sögð hafa safnað miklum fjármunum frá meðlimum sínum og notað þá til að fjármagna starfsemi sína.
Alexander Dobrindt, innanríkisráðherra Þýskalands, lýsti aðgerðunum sem „mikilvægu höggi gegn öfgahægrimönnum“ og sagði að „lýðræðisríkið muni ekki þola hópa sem starfa utan laganna og grafa undan frjálsu lýðræðislegu skipulagi“. Hann bætti við að samtökin hefðu „dreift gyðingahatri og samsæriskenningum sem ógna samfélagslegri samheldni“.
Þessi aðgerð kemur í kjölfar aukins þrýstings á þýsk yfirvöld til að bregðast við vaxandi öfgahægrimennsku í landinu. Á síðustu árum hafa yfirvöld aukið eftirlit með slíkum hópum og gripið til aðgerða gegn þeim sem ógna lýðræðislegu skipulagi landsins.