Jónas Már Torfason, lögfræðingur, segir málþóf Sjálfstæðisflokksins í veiðigjaldamálinu allt of einhæft sjónvarpsefni. Biður hann þingmennina um að brydda að minnsta kosti upp á einhverju nýju í málflutningi sínum fyrir þá sem heima sitja.
„Ég hef stytt mér dægur í fæðingarorlofinu með því að fylgjast með umræðum á Alþingi (sem hlýtur að teljast einhverskonar geðveila)“ segir Jónas Már í færslu á samfélagsmiðlum. „Þetta er svipað og þegar maður var í sumarfríi í gamla daga að horfa á miðdegissjónvarpið, þar sem var endurtekin dagskrá dag eftir dag eftir dag — ef frá eru taldar sápuóperurnar sem voru komnar á 18 þúsundasta þátt.“
Stjórnarandstaðan með Sjálfstæðisflokkinn fremstan í flokki sló í dag met yfir lengsta málþóf. Það er í fyrstu umræðu um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, um leiðréttingu veiðigjalda.
„Til umræðu á þinginu er leiðrétting á útreikningum veiðigjalda sem hefur staðið yfir í fleiri daga. Gerð hefur verið kyrfilega grein fyrir öllum helstu mótrökum andstæðinga þess að málið fái fram að ganga, að þjóðin fái raunverulegt verð fyrir fiskinn, og þeim mótrökum kyrfilega svarað. Það er ekkert sem á eftir að ræða. Endurtekið efni, dag eftir dag eftir dag,“ segir Jónas Már sem er augljóslega farið að leiðast sjónvarpsefnið sem stjórnarandstaðan býður upp á.
Ber hann þetta saman við Pírata, sem nú eru horfnir af þingi en Sjálfstæðismenn sökuðu um að beita málþófi.
„Á síðasta kjörtímabili var Sjálfstæðismönnum tíðrætt um meint málþóf Pírata í ýmsum málum. Þau virðast ætla taka sér það til fyrirmyndar og vera kyndilberar Píratapönksins — nú þegar er 1. umræða málsins sú lengsta í sögunni, og það hefur ekkert nýtt verið sagt í fjóra heila daga,“ segir Jónas Már.
Ekkert lát virðist á umræðunni sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingforseti, tilkynnti að myndi halda áfram á morgun. Jónas Már hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að bjóða upp á eitthvað nýtt fyrir áhorfendur.
„Ég bið ekki um meira en smá fjölbreytni í dagskrána fyrir okkur sem heima sitjum. Það væri til dæmis hægt að taka sápuóperurnar til fyrirmyndar,“ segir hann. „Kannski birtist formaður Sjálfstæðisflokksins skyndilega frá Ameríkuferð sinni en í ljós kemur að það er illur tvíburi hennar, eða kannski stígur einhver fram með dramatíska uppljóstrun um að þingmaður hafi haldið við gifta manneskju. Það er eflaust hægt að sækja frekari innblástur í Nágranna, Leiðarljós eða Dallas.“