Nýja uppfærslan kallast Eclipse og byrjar hún að rúlla út á heimsvísu frá og með 19. maí næstkomandi. Verður hún aðgengileg á flestum snjallsjónvörpum og tækjum á borð við Apple TV.
Ein helsta breytingin er sú að valmyndir verða nú efst á skjánum í stað þess að vera í hliðarstiku, en þetta á að gera notendum kleift að vafra um Netflix með skilvirkari og hraðari hætti. Á þetta til dæmis við um valmyndir þar sem hægt er að leita að efni eða skoða sjónvarpsþætti eða kvikmyndir.
Þegar notendur sveima yfir ákveðna titla munu þeir stækka og sýna stutt yfirlit yfir til dæmis lengd, verðlaun eða vinsældir. Loks má nefna nýtt persónulegt svæði þar sem notendur geta vistað efni, fengið áminningar um væntanlegt efni og fylgst með því sem þeir eru að horfa á.
Forsvarsmenn Netflix segja að nýja uppfærslan sé „persónulegri“ en sú fyrri og starfsmenn fyrirtækisins hafi unnið að því hörðum höndum að bæta notendaviðmót þessarar vinsælu streymisveitu.