fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Miklar sviptingar í fjármálum flokkanna á milli ára – Hafa fengið 9 milljarða króna frá árinu 2007

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 8. maí 2025 16:00

Stjórnmálaflokkar þurfa fjármagn eins og önnur samtök til að reka sig.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir þrír flokkar sem mynduðu síðustu ríkisstjórn töpuðu samanlagt rúmum 182 milljónum króna á milli ára vegna lélegs árangurs í síðustu Alþingiskosningum. Flokkarnir sem mynda hina nýju ríkisstjórn græða samtals 124,4 milljónir á milli ára. Alls hefur ríkissjóður greitt stjórnmálaflokkum tæpa 9 milljarða króna í árlega styrki sem hafa verið veittir frá árinu 2007.

Þetta kemur fram í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Árna Helgasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins sem situr nú á þingi.

Grundvellinum kippt undan

Sést þar svart á hvítu hversu miklum fjármunum flokkarnir þrír sem mynduðu síðustu ríkisstjórn töpuðu. Mest töpuðu Vinstri græn, sem fengu rúmar 87 milljónir króna árið 2024 en lentu undir 2,5 prósent markinu í kosningunum og hurfu þar með af fjárlögum.

Fjárhagur Vinstri grænna í rusli og framtíðin óviss.

Auk þess að vera stjórnmálalegt áfall fyrir flokkinn, sem leitt hafði ríkisstjórn í mörg ár, var þetta fjárhagsleg katastrófa. Vinstri græn hafa fengið vel yfir milljarð króna í árleg framlög. Frá árinu 2007 hefur flokkurinn fengið samtals 1.209.403.873 krónur.

Vont tap

Næst mest tapaði Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins. Enda beið hann afhroð í kosningunum og þurrkaðist út á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn fór úr 115,5 milljónum í 56,4 milljónir króna á milli ára. En það er tap upp á rúmlega 59 milljónir.

Framsóknarflokkurinn er í þriðja sæti yfir þá flokka sem hafa fengið mest framlög frá árinu 2007. Samanlagt hefur hann fengið 1.302.908.227 krónur.

Hafa fengið mest

Af ríkisstjórnarflokkunum sem mynduðu síðustu ríkisstjórn kom Sjálfstæðisflokkurinn skást út úr kosningunum. Tap hans í peningunum var hins vegar tæpar 36 milljónir króna á milli ára. Það er fór úr 158,1 milljón í 122,3.

Bjarni stýrði flokknum stærstan hluta tímans og bæði fylgið og fjármagnið á niðurleið.

Þó það eigi ekki við núna þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt verið stærsti flokkurinn á þingi og þar af leiðandi hefur hann fengið mesta árlega styrki úr ríkissjóði. Í heildina nema þeir 2.295.431.674 krónum eða rúmlega fjórðungur af öllum styrkjum.

Yfir þröskuldinn

Þrátt fyrir að vera ekki í ríkisstjórn fengu Píratar útreið í Alþingiskosningunum og féllu út af þingi. Hann slefaði hins vegar yfir 2,5 prósenta múrinn og komst því á fjárlög ársins 2025. Engu að síður tapar hann 46,5 milljónum króna, fer úr 63,7 í 17,2 milljónir.

Píratar eru sá flokkur sem hefur fengið mest heildarframlög án þess að eiga nokkurn tímann sæti í ríkisstjórn. Það er 576.420.016 krónur frá árinu 2014.

Fá áfram greitt

Minnst var tapið hjá Sósíalistaflokknum, enda úr lægstum söðli að falla þar sem flokkurinn hefur aldrei átt sæti á Alþingi. Framlög lækka úr 25,5 milljónum í 22,6, eða um tæpar 3 milljónir.

Sósíalistar hafa fengið 98.685.557 krónur frá árinu 2022.

130 kúlur

Þá er komið að sigurvegurunum, bæði í þingstyrk og beinhörðum peningum. Allir ríkisstjórnarflokkarnir þrír unnu sigra og Samfylkingin, flokkur forsætisráðherra, varð stærsti flokkur landsins. Jukust styrkir flokksins úr 71,5 milljónum króna í 130,2 á milli ára. Það er aukning um tæpar 59 milljónir.

Samfylkingin fær mest allra flokka í ár.

Samfylkingin hefur rokkað upp og niður frá árinu 2007 og minnstu munaði að flokkurinn hyrfi af þingi eftir kosningarnar árið 2016. Engu að síður er Samfylkingin sá flokkur sem hefur fengið næst hæstu styrkina frá árinu 2007, það er 1.498.822.632 krónur.

Aldrei stærri

Viðreisn er mun skammlífari flokkur en engu að síður flokkur sem var hætt kominn að falla út af þingi á tímabili. Flokkurinn hefur aldrei haft jafn mikinn þingstyrk og nú og framlög til hans jukust úr 61,9 milljón króna í 102,1, eða um rúmar 40 milljónir.

Þetta er níunda árið sem Viðreisn fær styrki frá ríkissjóði. Í heildina hefur flokkurinn fengið 531.119.539 krónur frá árinu 2017.

Sífelld bæting

Þriðji ríkisstjórnarflokkurinn, Flokkur fólksins, vann einnig góðan sigur í Alþingiskosningunum og er til að mynda stærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk 65 milljónir króna í fyrra en mun fá 90,5 milljónir í ár. Það er aukning um 25,5 milljónir króna á milli ára.

Leið Ingu hefur stöðugt legið upp á við.

Flokkur fólksins komst inn fyrir fjárlagaþröskuldinn eftir sínar fyrstu kosninga árið 2016 þrátt fyrir að hafa ekki náð þá manni inn. Allar götur síðan hefur flokkurinn bætt við sig fylgi, þingmönnum og krónum. Heildarframlög eru 513.861.728 krónur frá árinu 2017.

Bjuggust við meiru

Miðflokkurinn bætti við sig í síðustu Alþingiskosningum en hafnaði engu að síður utan ríkisstjórnar. Aukningin í peningum var rúmar 36 milljónir króna, það er fór úr 44,6 í 80,9 milljónir sem var reyndar minna en margir höfðu gert ráð fyrir.

Líkt og Píratar hefur Miðflokkurinn fengið um hálfan milljarð króna í styrki án þess að sitja nokkurn tímann í ríkisstjórn. Heildarframlög eru 535.267.827  krónur frá árinu 2018.

Á vit forfeðranna

Fleiri flokkar hafa fengið árlega styrki úr ríkissjóði, bæði flokkar sem hafa náð mönnum kjörnum á þing og ekki. Einn af þeim átti meira að segja sæti í skammlífri ríkisstjórn. Eru þeir eftirfarandi.

Björt framtíð: 93.061.168 krónur árin 2014 til 2017.

Borgarahreyfingin: 90.932.678 krónur árin 2010 til 2013.

Frjálslyndi flokkurinn: 77.194.925 krónur árin 2007 til 2009.

Dögun: 27.097.053 krónur árin 2014 til 2016.

Flokkur heimilanna: 26.412.107 krónur árin 2014 til 2016.

Íslandshreyfingin: 24.281.020 krónur árin 2008 til 2009.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

CIA með nýtt „vopn“ – Reyna að lokka Kínverja til að snúa baki við Xi Jinping – Myndband

CIA með nýtt „vopn“ – Reyna að lokka Kínverja til að snúa baki við Xi Jinping – Myndband
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sviðsmynd rússneskrar árásar á NATÓ vekur mikla athygli – „Ég vil ekki eiga þriðju heimsstyrjöldina á hættu vegna lítils bæjar í Eistlandi“

Sviðsmynd rússneskrar árásar á NATÓ vekur mikla athygli – „Ég vil ekki eiga þriðju heimsstyrjöldina á hættu vegna lítils bæjar í Eistlandi“
Fréttir
Í gær

KAPP og Loðnuvinnslan skrifa undir viljayfirlýsingu um nýja uppsjávarvinnslu 

KAPP og Loðnuvinnslan skrifa undir viljayfirlýsingu um nýja uppsjávarvinnslu 
Fréttir
Í gær

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni