Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari hefur verið umdeildur vegna þjálfunaraðferða sinna og hefur lengi deilt við forystu íþróttahreyfingarinnar. Hann hefur verið sakaður um að beita ofbeldi en vísar því alfarið á bug og segir sínar aðferðir snúast einkum um að valdefla leikmenn sína en Brynjar Karl hefur einbeitt sér að þjálfun kvenna og stúlkna. Vegna óánægju með vinnubrögð forsvarsmanna íþróttahreyfingarinnar hefur Brynjar Karl boðið sig fram til embættis forseta ÍSÍ. Meðal þeirra sem Brynjar Karl hefur deilt við er Hannes S. Jónsson framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) sem áður var forseti sambandsins. Í Facebook-færslu geldur Brynjar Karl varhug við því að Hannes hefur nú tekið sæti sem varamaður á Alþingi:
„Og ég sem hélt að staðan gæti ekki versnað. Spurning hvort Hannes S. Jónsson mæti með norður-kóresku leikjafræðibókina sína frá KKÍ og virkji sektarákvæði íþróttahreyfingarinnar ef einhver vogar sér að gagnrýna hina hvítþvegnu vinnu hans á hinu háa Alþingi.“
Brynjar Karl gerir síðan nánari grein fyrir hvers vegna hann beinir þessu orðalagi að Hannesi:
„Rifjum nú upp geðveikasta póst allra tíma. Þetta gerðist í kjölfar þess að heimildarmyndin „Hækkum rána“ var frumsýnd og margir, ég þar á meðal, þurftu að svara fyrir valdníðslu og lygar formannsins. Það sorglega er að þetta er ekki eina stöntið sem hann hefur gripið í og ekki það síðasta. Það er lýðræðinu fyrir bestu að Hannes fái aldrei meiri völd.“
Brynjar Karl rifjar síðan upp tölvupóstinn sem hann vísar í og segir Hannes hafa sent til formanna aðildarfélaga KKÍ 23. mars 2021:
„„Á fundi stjórnar KKÍ í gær ákvað stjórn KKÍ að vísa öllum ummælum sem geta skaðað ímynd leiksins til aga- og úrskurðarnefndar. Undanfarið hefur borið á ummælum sem eru ekki góð fyrir ímynd íþróttarinnar og í stað þessa að stjórn færi að kæra án þess að veit eina aðvörun þá var ákveðið að senda þennan póst á öll aðildarfélög. Þetta á við um öll ummæli sem falla frá og með deginum í dag, 23. mars 2021 og skaðað geta ímynd leiksins. Hér er meðal annars horft til ummæla sem vega að starfsheiðri KKÍ, starfsmanna og stjórnar sambandsins, dómara og annarra starfsmanna leiksins. Þetta geta verið ummæli sem falla í viðtölum við fjölmiðla, í hlaðvörpum, á samfélagsmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi. Stjórn KKÍ telur það alvarlegt mál ef aðildarfélög KKÍ, og þeir sem innan þeirra starfa, vegi með ósanngjörnum hætti að starfsheiðri þeirra KKÍ og starfsmanna leiksins. Það er ábyrgð ykkar formanna félaganna að ræða við ykkar fólk og koma þessum skilaboðum áfram.““