Olís hefur hafið sölu á viðlagakassa sem er ætlaður til að geyma helstu nauðsynjar sem fólk þarf til að komast af í að minnsta kosti þrjá daga verði til dæmis vatns- og rafmagnslaust. Viðlagakassi Olís er útbúinn með hliðsjón af gátlistanum sem Rauði krossinn hefur sett saman í sambærilegum tilgangi fyrir átaksverkefnið 3 dagar Ertu klár?
Markmið verkefnisins er að öll heimili landsins geti komist af í einhverja daga ef neyðarástand skapast af einhverjum orsökum en það getur gerst með litlum sem engum fyrirvara. Því er mikilvægt að öll séu undir það búin að vera án rafmagns, vatns og utanaðkomandi aðstoðar í að minnsta kosti þrjá daga. Með því móti er hægt að létta álaginu af viðbragðsaðilum og auðvelda þeim að takast á við brýnustu verkefnin og sinna þeim sem verst eru stödd.
„Við hjá Olís erum ótrúlega stolt af því að geta komið að þessu samfélagslega mikilvæga verkefni með þessum hætti. Starfsfólki Olís hefur tekist að viða að sér hlutum sem talið er mikilvægt að séu til staðar á hverju heimili samkvæmt verkefninu 3 dagar – Ertu klár? Viðlagakassi Olís er settur saman með hagkvæmum hætti svo hægt sé að selja hann á mjög góðu verði fyrir heimilin en þó þannig að hægt sé að láta ágóða af hverjum kassa renna til góðs málefnis sem er Rauði krossinn að þessu sinni,“ segir Ingunn Svala Leifsdóttir forstjóri Olís.
„Við erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem Olís sýnir okkur með sölu á viðlagakassanum sínum,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum. „Útbreitt rafmagnsleysi sem varð um daginn á Spáni og í Portúgal hefur vakið fólk þar og víðar hressilega til umhugsunar um viðbragð sitt og viðbúnað og kannski ekki síst um hversu háð við erum rafmagni. Á 3dagar.is má sjá hugmyndir um hluti sem ættu að vera í viðlagakassa heimilisins, meðal annars hluti sem gera lífið bærilegra ef rafmagnið fer. Það tapar enginn á því að vera vel undirbúinn.“
Viðlagakassi Olís hefur að geyma flest það sem þarf til að komast af í fáeina daga. Má þar nefna handhægt útvarp sem nýtist jafnframt sem ljós og hleðslutæki; aukarafhlöður, kerti, prímus, gashylki, fjölnotaverkfæri, vel útbúna skyndihjálpartösku og fleira gagnlegt. Gott er að huga að öðrum nauðsynjavörum eftir þörfum eins og vatni, lyfjum, þurrmat, niðursuðudósum, hreinlætisvörum og ýmsu sem tilheyrir börnum og gæludýrum.
Kassinn kostar 18.900 kr. og er til sölu á Olís Norðlingaholti og verður innan skamms fáanlegur á öllum þjónustustöðvum Olís.