Geðfatlaður síbrotamaður með þroskaröskun, Sigurður Almar, situr núna í gæsluvarðhaldi á óþekktum stað, vegna rannsóknar á lögreglu á atviki á heimili Sigurðar við Hverfisgötu um helgina. Sigurður er grunaður um að hafa frelsissvipt erlendan ferðamann.
Verjandi Sigurðar, Eva Hauksdóttir lögmaður, segist í samtali við DV hafa kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir skjólstæðingi hennar til Landsréttar. Hún segir Sigurð vissulega ekki eiga að vera á eigin vegum en hann eigi samt ekki heima í gæsluvarðhaldi.
Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli d) liðar 95. greinar laga um meðferð sakamála, þ.e. á grundvelli þess að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.
Eva segir að í rauninni sé Sigurður samt úrskurðaður í gæsluvarðhald á læknisfræðilegum forsendum, sem sé ekki í samræmi við lög. „Málið er að hann er ekkert hættulegri en hann hefur verið, hann er búinn að vera hættulegur mjög lengi. Það er enginn ágreiningur um að maðurinn á ekki að vera á eigin vegum en það á ekki að beita gæsluvarðhaldi heldur öðru úrræði. Við erum hins vegar ekki með réttarvörslukerfi sem ætlað er að taka á svona vandamálum.“
Eva segir að Afstaða, félag fanga, hafi beitt sér fyrir því að Sigurður gæti lifað í öruggu umhverfi en borgin hafi ekki viljað taka þátt í þeim kostnaði sem því fylgir.
Langur brotaferill
Sigurður á langan brotaferil að baki, meðal annars vegna ofbeldis- og kynferðisbrota. Fyrir ekki löngu lauk hann afplánun á fimm ára fangelsisdómi fyrir kynferðis- og ofbeldisbrot.
Kompás fjallaði árið 2023 um feril hans og úrræðaleysi kerfisins varðandi það að veita honum viðeigandi meðferð. Í frétt Vísis um þáttinn segir:
„Í fangelsum er mjög veikt fólk sem ætti undir öllum kringumstæðum að vera í sértækum úrræðum. Þetta er andlega veikt fólk með þroskaraskanir og geðsjúkdóma. Fólk sem höndlar á engan hátt aðstæðurnar í fangelsi eða samneyti við aðra fanga og er þess vegna oft einangrað frá öllum á öryggisgöngum.
Þessir fangar fá ekki viðeigandi aðstoð, skilja oft ekki stöðu sína og þeirra andlegi vandi verður alvarlegri. Og þannig er þeim síðan hleypt aftur út í samfélagið.“
Kemur það fram að Sigurður hefur strítt við andleg og líkamleg veikindi nánast frá fæðingu en hann fæddist sjö mánuðum fyrir tímann. Um átta ára aldur greindist hann með ofvirkni, þráhyggju, ADHD og misþroska. Hann byrjaði að fikta við fíkniefni í grunnskóla og var fljótlega vistaður á meðferðarheimilum.
Sjá nánar hér.