fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Eiríkur um enskunotkun hjá erlendu starfsfólki á Íslandi – „Við erum í vanda“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. mars 2024 11:35

Eiríkur Rögnvaldsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, segir samfélagið vera í vanda vegna útbreiddrar enskunotkunar. Hann hefur fullan skilning á óþoli gagnvart ástandinu en segir það gera illt verra að amast við útlendingum í þjónustustörfum hér á landi. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is, sem hefst á þessum orðum:

„Íslenskan í vanda um þessar mundir – við erum í vanda. Það hefur komið fram í umræðum undanfarið, á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og víðar, að mikið og vaxandi óþol ríkir gagnvart ensku­notkun á Íslandi, ekki síst á kaffihúsum, veitingahúsum og í verslunum þar sem oft er ekki hægt að fá afgreiðslu á íslensku. Ég skil þetta óþol vel og hef fundið fyrir þessari tilfinningu sjálfur á ferðum um landið undanfarin ár. Íslenska er opinbert mál landsins og það er ekkert óeðlilegt að fólk geri ráð fyrir og ætlist til að geta notað íslensku við kaup á vörum og þjónustu. Sumt eldra fólk býr ekki heldur yfir nægilegri enskukunnáttu til að eiga auðvelt með að skilja matseðla sem eru eingöngu á ensku eða ræða á ensku við afgreiðslufólk.“

Eiríkur segir enga ástæðu til að gera lítið úr óþoli fólks gagnvart þessu ástandi. Hins vegar megi það ekki bitna á erlenda starfsfólkinu sem vinni langan vinnudag og óraunhæft sé að gera ráð fyrir því að það stundi íslenskunám meðfram vinnnni auk þess sem sorglega lítið framboð sé af íslenskukennslu og heppilegu kennsluefni fyrir útlendinga.

Hann telur lykilatriði vera að Íslendingar breyti viðhorfum sínum til „ófullkominnar“ íslensku. Ótækt sé að útlendingar sem reyna að tala íslensku fái á sig óvægna gagnrýni fyrir lélegan framburð, vitlausar beygingar og ranga orðanotkun. Hann segir síðan:

„Við eigum nefnilega engan annan kost en finna raunhæfa lausn sem sættir ólík sjónarmið. Lausn sem tekur mið af því að enskan er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram verða fólk í afgreiðslustörfum sem ekki talar fullkomna íslensku – en jafnframt af því að ís­lenska er opinbert mál landsins sem mikilvægt er að unnt sé að nota á öllum sviðum, og það er eðlileg ósk fólks að geta notað málið í einföldum samskiptum við útlendinga. Lausnin hlýtur annars vegar að byggjast á því að erlent starfsfólk sé hvatt til að læra íslensku, og því auðveldað það á ýmsan hátt, og hins vegar á breyttu viðhorfi Íslendinga til útlendinga og „ófullkominnar“ íslensku. Lykilatriðin hljóta alltaf að vera umburðarlyndi, virðing og tillitssemi. Á báða bóga.“

Sjá grein Eiríks

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí