Lögregla getur enn gefið mjög takmarkaðar upplýsingar um rannsókn á andláti sex ára drengs á Nýbýlavegi að morgni miðvikudagsins 31. janúar.
Móðir drengsins er í gæsluvarðhaldi og er grunuð um að hafa orðið drengnum að bana. Eldri sonur hennar var á leiðinni í skólann er lögregla og sjúkralið komu á vettvang milli kl. 7:30 og 8:00 á miðvikudagsmorguninn.
Móðirin er 52 ára gömul. Faðir drengsins er tæplega fimmtugur, hann býr einnig á Íslandi en ekki á sama stað og konan og börnin. Staðfest er að faðirinn er frá Írak en fjölskyldan hefur notið alþjóðlegrar verndar hér á landi í þrjú til fjögur ár.
Eiríkur Valberg, fulltrúi á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, tjáði DV í morgun að farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir konunni en hún var síðastliðið miðvikudagskvöld úrskurðuð sjö daga gæsluvarðhald, sem rennur út í dag. Eiríkur segir lögreglu geta veitt mjög takmarkaðar upplýsingar um rannsókn málsins og er ekki tilbúinn að gefa upp hvað farið verður fram á langt gæsluvarðhald. Búast má við tilkynningu frá lögreglu um gæsluvarðhald í eftirmiðdaginn.
„Við teljum okkur vera komin með nokkuð góða mynd af atvikum,“ segir Eiríkur, aðspurður um hvernig rannsókn miði. Hann var ekki tilbúinn að tjá sig um hvort móðirin hafi verið samvinnufús. „Ég held að það sé ekki rétt að svara því á þessum tímapunkti.“ Hann er heldur ekki tilbúinn að svara því hvort lögregla telji að vopn hafi komið við sögu.
Aðspurður segir Eiríkur að krufning á látna drengnum hafi farið fram. Hann getur ekki veitt upplýsingar um niðurstöður krufningar fyrir utan þetta: „Krufning gefur vísbendingu um hugsanlega dánarorsök.“
Gæsluvarðhald hefur verið framlengt um fjórar vikur.