Í grein sinni gerir Björn að umtalsefni hræðilegt banaslys sem varð á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar í lok september þegar ung kona í blóma lífsins lést eftir að ekið var á hana. Björn vottar fjölskyldu og ástvinum hennar sína dýpstu samúð og segir að slík slys minni okkur á mikilvægi öryggis í umferðinni og hvernig fulltrúar borgarinnar bera ábyrgð á að tryggja það.
„Áhyggjufullir íbúar, foreldrar og aðrir vegfarendur hafa reynt að vekja athygli borgaryfirvalda á málinu sl. tvö ár án viðbragða. Haft var eftir íbúa á svæðinu fyrir tveimur árum í fréttum Stöðvar tvö að minnstu hefði mátt muna að keyrt hefði verið á hann sjálfan, konu hans og börn. Nú verðum við sem borgarstjórn hins vegar að grípa til aðgerða,“ segir Björn í grein sinni.
Björn segir að þrátt fyrir að mannslíf verði aldrei metin til fjár sé mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem fylgir slíkum slysum – ekki bara fjárhagslegum heldur samfélagslegum.
„Hvert banaslys kostaði samfélagið skv. heilbrigðisráðuneytinu um 660 milljónir króna á verðlagi ársins 2014, eða einn milljarð króna á verðlagi dagsins í dag. Þá er ótalið það tilfinningajón sem hlýst við þann sára missi sem fjölskyldur fórnarlamba umferðarslysa verða fyrir,“ segir hann.
Björn segir að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn leggi til að farið verði í neyðaraðgerðir án tafar í samráði við Vegagerðina, til að auka umferðaröryggi á umræddum gatnamótum.
„Tillagan er skýr, en í henni felst meðal annars að komið verði fyrir sérstakri snjallgangbraut, þar sem LED-ljós lýsa upp gangandi vegfarendur þegar þeir ganga yfir götuna, en íbúar hafa kvartað lengi yfir lýsingu á svæðinu. Jafnframt er lagt til að snjallvæða umferðarljósin á þessum gatnamótum, en snjallstýrð umferðarljós geta bjargað mannslífum. Núverandi ljósum er stýrt með klukku þrátt fyrir að borgaryfirvöld hafi haldið öðru fram, en græna ljósið varir aðeins í 15 sekúndur. Það sýnir okkur – svo ekki verður um villst – að ljósunum er klukkustýrt í stað þess að vera snjallstýrt. Ef ljósunum væri raunverulega snjallstýrt myndu ljósin skynja vegfarendur á gangi yfir götuna og halda ljósinu grænu þar til vegfarendur væru komnir leiðar sinnar yfir götuna.“
Banaslysið á Sæbraut: Kjartan vildi auka öryggi gangandi vegfarenda en tillagan var felld
Björn segir að snjallstýrð umferðarljós bjóði upp á tæknilausnir sem bæði greiða fyrir umferð og auka öryggi. Þannig geti nýjustu kerfin greint umferð gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda og tryggt betra umferðarflæði. „Þetta er ekki bara tækninýjung sem einfaldar okkur lífið, heldur getur hún bjargað mannslífum þegar vá ber að garði,“ segir hann.
Björn starfaði áður sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og segir hann að nýjustu útfærslur snjallstýrðra umferðarljósa geti skipt sköpum í neyðartilvikum, þar sem græn bylgja á umferðarljósum getur hraðað för viðbragðsaðila og minnkað slysahættu.
Björn veltir fyrir sér hvers vegna Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í þessum efnum.
„Jú, borgaryfirvöld hafa beitt sér gegn snjallvæðingu umferðarljósa, þar sem hún greiðir ekki aðeins fyrir almenningssamgöngum heldur einnig fyrir umferð annarra ökutækja. Þetta stríðir gegn stefnu borgarinnar, sem virðist leggja meiri áherslu á að hægja á umferð fólksbíla en að bæta umferðina í heild,“ segir hann og bætir við að þrátt fyrir augljósa kosti snjallvæðingar hafi borgaryfirvöld verið treg til að innleiða þessa nýjustu tækni.
„Í staðinn fyrir að nýta sér þá möguleika sem snjallstýring býður upp á er haldið fast í úreltar lausnir eins og klukkustýrð ljós sem eiga lítið erindi við nútímann. Að hafna snjallstýringu í umferðarljósum er ekki ósvipað því að neita að skipta út gasljósastaurum fyrir rafmagnsljós, eins og á fyrri tímum. Það er ljóst að tafir á innleiðingu snjallvæðingar hafa kostað okkur dýrmætan tíma og jafnvel mannslíf. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað barist fyrir því að snjallljósastýring verði forgangsmál, og við þurfum að ganga lengra í því að koma þessum kerfum í notkun strax. Tíminn til aðgerða er núna. Við getum ekki frestað þessu lengur,“ segir Björn að lokum.