Gengi unglinga á grunnskólaaldri hafa haldið stigagangi fjölbýlishús í Hafnarfirði í gíslingu síðan í vor. Hafa þau haldið partí í sameiginlegu leikherbergi kjallaranum, reykt kannabis og drukkið áfengi. Eftir að skipt var um lása köstuðu unglingahópurinn eggjum í húsið.
„Við erum komin endanlega með nóg af ástandinu,“ segir kona sem býr í stigagangi fjölbýlishússins, sem stendur við götuna Laufvang í Norðurbæ Hafnarfjarðar. Hefur unglingagengið ekki látið íbúana í friði síðan í vor.
Konan segist tala máli allra íbúanna í stigaganginum. Var málið kært til lögreglu í dag og er komið í ferli hjá embættinu að hennar sögn.
Í stigaganginum eru sex íbúðir. Í kjallaranum eru sameiginleg rými, svo sem smíðaherbergi, gufubað, hjólageymsla og leikherbergi fyrir börnin. Í þessu leikherbergi hafa unglingarnir hreiðrað um sig.
Konan segir að þessi vandræði hafi byrjað í vor. Um er að ræða á bilinu 10 til 15 unglinga sem eru á aldrinum 13 til 15 ára.
„Aðal forsprakkinn bjó hérna en flutti í sumar,“ segir hún. Héldu íbúarnir að þetta myndi hætta eftir að móðir forsprakkans flutti út. En krakkarnir voru enn þá með lykla. „Þetta hefur ekki hætt síðan.“
Hafa unglingarnir haldið partí með mjög miklum hávaða. Herbergið er í rúst og þar hafa fundist ummerki um kannabis og áfengisneyslu.
„Löggan kom oft og í einu tilfelli var hérna strokukrakki að fela sig og og allt fór í hávaða loft,“ segir konan.
Ekkert hefur gengið að ræða við foreldra unglinganna, en aðeins sé vitað hverjir tveir þeirra séu. Konan segir að eftir eitt partíið hafi foreldri ekki vilja kannast við að hans barn hefði verði að verki. Búið sé að reyna að ná í aðra en enginn svari.
Á endanum var skipt út lásum. Brugðust þeir þá við með því með því að herja á íbúana með eggjakasti og fleiru. Eggjunum var kastað í húsið á laugardag og hafa unglingarnir sést með eggjabakka undir höndum síðan þá, væntanlega til þess að endurtaka leikinn.
„Þetta eru mótmælin hjá þeim… fyrir utan að liggja á dyrabjöllum og ónáða fólk,“ segir konan.