Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti nú fyrir stundu að hann myndi leggja fram tillögu um þingrof fyrir forseta Íslands og boðað verði til kosninga í lok nóvember.
Í máli Bjarna kom fram að ágreiningur hafi staðið yfir innan ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum um nokkurt skeið sem og í orkumálum. Ágreiningur sé einnig í öðrum málum og sagðist Bjarni ekki sjá fyrir sér að farsælar lausnir myndu nást á þeim.
Lagði hann þó áherslu á að ríkisstjórnin hefði komið mörgu í verk og staðið frammi fyrir sögulegum verkefnum á borð við heimsfaraldur Covid-19 og náttúrhamfarir á Reykjanesi. Margt hafi verið vel unnið og leyst en nú hafi verkefnin breyst.
Sagðist Bjarni gera ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir myndu starfa fram að kosningum. Náist ekki samstaða um það mun hann biðjast lausnar og við tæki starfsstjórn.
Aðspurður sagðist Bjarni stefna að því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Hann væri formaður flokksins og með sterkt umboð til þess.
Á fundinum kom einnig fram að Bjarni hyggðist funda með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum kl.9.00 í fyrramálið.