fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Stór hluti lunga skorinn úr af óþörfu – Málið ekki hreyfst hjá Sjúkratryggingum í sjö mánuði

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 31. janúar 2024 12:30

Maðurinn hefur nokkrum sinnum spurt um framgang málsins en ekki fengið svör

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður hefur kært Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vegna óeðliega tafa á máli hans. Hluti af lunga hans var skorinn úr af óþörfu og skaðabótamáli hans hefur lítið miðað innan stofnunarinnar. Lögmaður spyr hvort ákveðinn starfsmaður SÍ sé vísvitandi að tefja málið.

Maðurinn fór í aðgerð á Landspítalanum þann 19. september árið 2020 til að láta fjarlægja illkynja æxli úr hægra lunganu. Var stór hluti lungans skorinn burt.

Eftir uppskurðinn kom hins vegar í ljós að ekki var um hættulegt æxli að ræða. Þetta reyndist vera það sem á læknamáli kallast „granuloma“, meinlausir hnútar sem geta orðið til í líkamanum á ýmsum stöðum.

Taldi maðurinn því að aðgerðin hefði verið algerlega óþörf og valdið honum líkamstjóni. Vildi hann sækja bætur vegna hennar.

Ekki hreyfst í sjö mánuði

Málið var tilkynnt sem sjúkratryggingaatburður til SÍ þann 26. apríl árið 2022. Hefur málið síðan tekið mjög langan tíma og ekki hreyfst innan kerfisins mánuðum saman.

SÍ báðu um greinargerð frá Landspítalanum og fengu hana þann 19. apríl árið 2023. Álit læknis barst rúmum tveimur mánuðum seinna, 26. júní árið 2023. Fékk maðurinn engin skilaboð um þessi gögn, jafn vel þó hann hafi reglulega spurt um gang málsins. Hann fékk heldur ekki að vita hver sæi um mál hans innan SÍ.

Næsta skref í málinu á að vera það að fagteymi fari yfir það, skipað læknum og lögfræðingum. Að sögn Steingríms Þormóðssonar, lögmanns mannsins, hefur hins vegar ekkert gerst í málinu núna í sjö mánuði. Hann búist við því að aðrir sjö mánuðir líði áður en teymið tekur við málinu.

Bera við manneklu

Maðurinn kærði tafirnar á málinu til Úrskurðarnefndar velferðarmála eins og stjórnsýslulög gera ráð fyrir en SÍ brugðust við með greinargerð þann 17. janúar síðastliðinn. Þar sagði að ekki hafi verið hægt að byrja málið fyrr en 13. október árið 2022 vegna þess að undirritun hefði vantað á umsókn til að hægt væri að hefja gagnaöflun.

„Umsóknir um bætur úr sjúkratryggingu hafa verið á bilinu 188 – 242 ár hvert. Hver umsókn um bætur úr sjúkratryggingu krefst mikillar vinnu, gagnaöflunar, rannsókna lækna og lögfræðinga og ritunar ákvörðunar. Velta þarf öllum steinum svo mál teljist rannsakað með fullnægjandi hætti,“ segir í greinargerðinni.

Því miður sé málsmeðferðartími því langur, á bilinu 6 til 24 mánuðir, sem skýrist að miklu leyti af manneklu en einnig viðbrögðum heilbrigðisstofnana við gagnaöflun. Taldi SÍ ekki að mál mannsins hefði dregist óhóflega.

Einfalt mál

Maðurinn gerir kröfu um að úrskurðað verði að málið hafi orðið fyrir óhæfilegri töf, upplýsi um hvenær úrskurðað verður, hver sjái um málið og að SÍ afhendi honum þau gögn sem aflað hafi verið, svo sem læknisálitið frá því í júní.

Í kröfunni segir að málið sé einfalt. Röng greining hafi verið gerð á manninum, honum valdið líkamstjón og eigi rétt á bótum. Öll gögn hafi legið lengi fyrir en engu að síður hreyfist málið ekki.

Með greinargerð SÍ hafi ekki fylgt nein skjöl, bréf SÍ til læknisins og álit hans sé hulið. „Allt er þetta einhver leyndardómur, þar sem þessi gögn eru ekki lögð til nefndarinnar með greinargerðinni,“ segir í kærunni. Greinargerðin sé því að engu hafandi.

Tilgangurinn að þreyta og þæfa

Maðurinn hafi sent nokkur erindi til SÍ til að spyrjast fyrir um hvar málið sé statt en hafi ekki fengið svör um það, sem sé brot á stjórnsýslulögum. Aðeins eftir að málið var kært var honum tjáð um gang málsins fram til þessa. Hann hafi aldrei verið kallaður á fund læknisins og viti ekki einu sinni hver hann er. Andmælaréttar hans sé hvergi gætt.

„Virðist tilgangurinn vera sá, að þreyta viðkomandi sjúkling og lögmann hans. Setja málið í ákveðið gljúfur, sem erfitt er að ná því uppúr,“ segir í kærunni. Sífellt erfiðara verði að afla gagna eftir því sem líður frá atburði.

Manneklu sé ekki hægt að nota sem afsökun þegar mál séu unnin á þennan hátt. „Í þessu máli sé spurningin einnig hreinlega sú, hvort ákveðinn starfsmaður Sjúkratrygginga Íslands sé að tefja þetta einfalda mál, sem vel getur verið og væri alvarlegt mál, en það ætti að koma í ljós, ef ofangreindra gagna væri aflað,“ segir að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna