fbpx
Sunnudagur 11.maí 2025
Fréttir

Hrafnhildur fengið nóg: „Þessi hegðun er kjánaleg, lúðaleg og heimskuleg“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. september 2024 14:03

Hrafnhildur Ming. Mynd/Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst þreytandi að ég þurfi að svara fyrir mig í hvert sinn sem ég lendi í fordómum og mér finnst þreytandi að fá ráðleggingar frá öðrum um hvað ég gæti mögulega sagt á móti vegna þess að ég á ekki að þurfa að segja neitt á móti.“

Þetta segir Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir í kröftugum pistli á Facebook sem vakið hefur mikla athygli. Hrafnhildur veitti DV góðfúslegt leyfi til að endursegja efni pistilsins en þar skrifar hún um fordóma sem hún hefur orðið fyrir hér á landi.

Hrafnhildur er ættleidd frá Kína og er dóttir Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingkonu og fyrrverandi ráðherra.

Ítrekað gelt á hana

Í pistlinum segir Hrafnhildur:

„Þann 2. nóvember árið 2003 hitti ég móður mína, Þórunni Sveinbjarnardóttur, í fyrsta skipti. Ég var rúmlega eins árs gömul. Líkt og flest allt fólk hef ég engar minningar frá eins árs aldri en ég tel ólíklegt að ég hafi óskað eftir því að kynnast móður minni eða þá að flytja til Íslands. Í dag er ég samt nokkuð viss um að þetta sé það besta sem mögulega hefði getað orðið og ég vil líka halda því fram að ég hafi verið frábær viðbót fyrir hið íslenska samfélag þar sem ég er nú ein af fáum nemendum sem lærir íslensku við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að halda uppi, eins og sumir vilja kalla það, deyjandi tungumáli og menningu,“ segir hún.

Hrafnhildur segir að þess vegna finnist henni afskaplega sorglegt hvernig svo virðist sem fordómar hafi fengið sérbyggðan hægindastól í íslensku samfélagi þar sem fólk telur í lagi að gelta, urra og kalla aðra apa.

„Í fullri hreinskilni finnst mér ég hafa skrifað þennan pistil áður og ég hef í raun engan áhuga á að skrifa hann aftur. Mér finnst ósanngjarnt að ég þurfi að standa í því að biðja fólk að skilja að fólk sé fólk. Mér finnst þreytandi að ég þurfi að svara fyrir mig í hvert sinn sem ég lendi í fordómum og mér finnst þreytandi að fá ráðleggingar frá öðrum um hvað ég gæti mögulega sagt á móti vegna þess að ég á ekki að þurfa að segja neitt á móti. Ég á ekki að þurfa að verja minn tilvistarrétt,“ segir Hrafnhildur sem nefnir svo nýleg dæmi um fordóma sem hún hefur orðið fyrir hér á landi.

„Frá upphafi sumars og til dagsins í dag hefur verið gelt á mig á leið í skóla, í skóla, á leið heim úr skóla, í verslunum, fyrir utan verslanir, fyrir utan vinnu, á leið í strætó, í strætó og á leið heim úr strætó. Ég hef verið kölluð api þrisvar sinnum og komst að því að ”ching chong ching” vísunni, sem ég komst fyrst í kynni við á leikskólaaldri, hefur enn ekki verið útrýmt. Börn tala í síauknum mæli við mig af fyrra bragði á ensku, og hingað til hefur það sjaldnast verið vegna enskuvæðingarinnar,“ segir hún.

Ábyrgðin á ekki að vera hjá henni

Hrafnhildur bætir við að hún hafi engan áhuga á að þurfa að finna upp eitthvað snilldar svar til að fá þetta fólk til að sjá hve lúðalegt það er. Og henni finnst hún heldur ekki eiga að þurfa að gera það.

„Ég vil þess vegna núna biðja ykkur sem lesið þennan pistil að deila því til fólks að þessi hegðun er hvorki flott, sniðug eða fyndin heldur kjánaleg, lúðaleg og heimskuleg. Ábyrgðin á útrýmingu kynþáttafordóma ætti ekki að vera á mér eða öðrum lituðum heldur á samfélaginu. Mér finnst ég ekki biðja um mikið þegar ég óska eftir því að fólk tali á íslensku á Íslandi, að mér sé leyft að ganga um sömu götur og aðrir í friði og að fólk sem hafi þessa rosalegu þörf á að láta mig vita hve mikla fordóma það hefur gegn magni melatóníns í húðinni minni viðurkenni bara að það sé rasistar í staðinn fyrir að vera að gelta honum út.“

Hrafnhildur ítrekar að lokum að hún eigi ekki að þurfa að standa í þessu.

„Ef einhver þeirra sem hafa verið að gelta á mig nýlega les þetta vil ég að þið vitið að ég fæ kjánahroll upp á bak í hvert sinn og að þið ýtið mjög upp mínu eigin sjálfsáliti vegna þess að ég veit að ég myndi aldrei leggjast jafn lágt og þið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Minnst sjö hafa kært Írisi Helgu fyrir umsáturseinelti

Minnst sjö hafa kært Írisi Helgu fyrir umsáturseinelti
Fréttir
Í gær

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér