

Ónafngreind kona hefur verið dæmd í 60 daga skilorðsbundið fangelsi, til tveggja ára, fyrir að blygðunarsemis- og barnaverndarbrot. Var konan sökuð um að hafa í októbermánuði 2022, ítrekað viðhaft kynferðislegt og óviðeigandi orðbragð við ólögráða dreng.
Konan, sem hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi, játaði skýlaust sök sína í málinu en hún sendi skilaboð á borð við: „U just turned me on, I got toys if I need it, You look hot“ í gegnum ótilgreindan samfélagsmiðil til barnsins. Í ákæru málsins var konan sökuð um að hafa sært blygðunarsemi drengsins með lostugu athæfi og voru skilaboðin vanvirðandi, ósiðleg og særandi.
Aldur drengsins kemur ekki fram í ákærunni, en hann er undir lögaldri. Móðir drengsins fór fram á að konunni yrði gert að greiða syni sínum 2 milljónir króna í miskabætur vegna málsins, auk vaxta. Konan samþykkti bótakröfuna en fór fram á fyrir dómi að fjárhæðin yrði lækkuð. Var það ákvörðun dómara að 300 þúsund króna bætur væri hæfilegt.
Refsiramminn í málinu var allt að sex ára fangelsi en eins og áður segir ákvað dómari málsins að 60 daga skilorðsbundið fangelsi væri hæfilegt í ljósi þess að um fyrsta brot konunnar væri að ræða.
Þá þurfti hún að greiða tæpa eina og hálfa milljón í málsvarnarlaun til þriggja lögmanna sem komu að málinu á mismunandi stigum þess.