

Veðurstofan hefur sent frá sér nýja tilkynningu um stöðu mála í Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga.
Í tilkynningunni segir að skjálftavirkni vaxi dag frá degi. Tveir skjálftar yfir 2 að stærð hafi mælst í nótt. Skýr merki séu um að þrýstingur sé að aukast á svæðinu. Þróun í kvikusöfnun og landrisi hafi verið óbreytt síðustu daga. Magn kviku undir Svartsengi sé meira en fyrir síðustu atburði. Hættumat og sviðsmyndir séu óbreyttar.
Skjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina sýni áfram sömu merki og sáust dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí. Tveir skjálftar yfir 2 að stærð hafi mælst í nótt og hafi alls sex skjálftar yfir tveimur mælst síðustu viku.
Skjálftavirknin sé merki þess að þrýstingur haldi áfram að vaxa á svæðinu vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi.
Þróun í kvikusöfnun og landrisi hafi verið óbreytt síðustu daga. Líkanareikningar sýni að heildarrúmmál kviku undir Svartsengi sé nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði.
Áfram séu því taldar miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni hvenær sem er.
Hættumat og sviðsmyndir séu áfram óbreyttar.
