Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda áform um að fella úr gildi sérstök lög um Bankasýslu ríkisins. Með lagabreytingunum yrðu verkefni stofnunarinnar flutt til fjármála- og efnahagsráðherra. Heimildin greindi fyrst frá.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, er á sama tíma staddur í Kraká í Póllandi þar sem hann gegnir hlutverki liðstjóra íslenska landsliðsins sem gerir harða atlögu að heimsmeistaratitli á HM öldungasveita. Sveitina skipa stórmeistararnir Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason og Þröstur Þórhallsson. Hefur Ísland leitt keppnina nánast allt mótið en sár ósigur í gær gegn sveit Bandaríkjanna gerði það að verkum að liðið féll niður í annað sætið fyrir lokasprettinn. Þurfa Jón Gunnar og hans menn því að bíta í skjaldarrendur, gera sitt og vona að Bandaríkjamenn misstígi sig.
Það er þó ólíklegt að auglýsing ráðuneytisins muni koma Jóni Gunnari í opna skjöldu og trufla hann við liðsstjórastörfin. Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir fyrir meira en tveimur árum síðan að til stæði að leggja stofnunina niður. Jón Gunnar er eini starfsmaður stofnunarinnar í dag og hefur stofnunin að „mestu lokið verkefnum sem henni var ætlað og ekki þykir forsvaranlegt að starfrækja hana lengur,“ eins og segir í skjali ráðuneytisins.
Jón Gunnar var skipaður í forstjórastólinn í lok árs 2011 en helsta verkefni Bankasýslunnar hefur verið að halda utan um eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkunum þremur. Gustað hefur um Jón Gunnar í starfi sínu, sér í lagi í tengslum við umdeildu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka árið 2022. Var útboðið úthrópað sem sögulegt klúður og varð það meðal annars til þess að Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans, vék úr starfi ásamt fleiri stjórnendum bankans.
Þrátt fyrir það hefur Jón Gunnar hvergi hvikað í þeirri sannfæringu sinni að um farsælasta útboð Íslandssögunnar sé að ræða. Hvað sem líður yfirvofandi atvinnumissi forstjórans þá liggja skákáhugamenn landsins á bæn um að þessi staðfesta og baráttugleði Jóns Gunnars í erfiðri stöðu geti hjálpað landsliðinu að gullinu í Kraká.