Erlendur maður hefur verið sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gegn starfsstúlku á veitingastaðnum KFC Selfossi.
Atvikið sem um ræðir átti sér stað þann 8. janúar árið 2022. Maðurinn strauk rass stúlkunnar utanklæða er hún var við vinnu sína á staðnum. Fyrir dómi játaði maðurinn að hafa snert stúlkuna en neitaði að hafa gerst brotlegur. Staðhæfði hann að snerting hans hefði verið ósjálfráð og ekki kynferðisleg.
Upptökur af atvikinu úr eftirlitsmyndavél, sem og trúverðugur framburður stúlkunnar, renndu hins vegar stoðum undir að maðurinn hefði áreitt stúlkuna kynferðislega.
Var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í miskabætur.
Dóminn, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Suðurlands, má lesa hér.