Jón Ólafsson prófessor leiðir líkur að því að gífurlega harkaleg viðbrögð við forsetaframboði Katrínar Jakobsdóttur séu dulin birtingarmynd kvenhaturs í samfélaginu. Jón birti grein á Vísir.is síðdegis í gær sem er orðin mjög umtöluð og umdeild.
Samfélagslega kvenhatrið sem Jón vísar til segir hann búa í rótgrónum hugmyndum um hlutverk karla og kvenna, sem valdi því að sambærileg framganga kynjanna á hinu pólitíska sviði mæti ólíkum viðbrögðum eftir því hvort í hlut á karl eða kona. Jón skrifar:
„Íslendingar hafa haft þjóðkjörinn forseta frá 1952 eða í 72 ár. Helming þessa tíma, 36 ár, hefur forsetinn verið fyrrverandi stjórnmálamaður. Ásgeir Ásgeirsson hafði verið þingmaður tveggja flokka og forsætisráðherra. Hann fór beint af þingi, eftir meira en 30 ára setu, á Bessastaði árið 1952 þar sem hann hélt áfram að leika pólitískt hlutverk næstu 16 ár. Engum þótti neitt óeðlilegt við það. Ólafur Ragnar Grímsson var umdeildur stjórnmálamaður í aldarfjórðung, flokksformaður og ráðherra áður en hann var kosinn forseti. Margir töldu pólitísk afskipti hans styrkleika í 20 ára forsetatíð og engum datt í hug að halda því fram að það væri siðlaust að hann tæki við embætti eða eða töldu að hann myndi hygla pólitískum samherjum sínum. Nú þegar forsætisráðherra víkur úr embætti til að bjóða sig fram gilda allt í einu aðrar röksemdir en um karlana. Framboð Katrínar er sagt siðlaust, sumir halda því fram grafalvarlegir að hún sé vanhæf til að fara með þau völd sem í því felast að veita stjórnarmyndunarumboð, fólk segist hafa þungar áhyggjur af stökki úr forsætisráðherrastóli á Bessastaði ef til kemur. Því er semsagt haldið fram að hún megi ekki bjóða sig fram. Með því að gera það hafi hún farið yfir mörk.“
Ráða má af skrifum Jóns að hann telji að körlum leyfist frekar að leika list hins ómögulega í pólitíkinni en konum:
„Ég ætla ekki að halda því fram að fólk sem er ósammála Katrínu eða ósátt við þá pólitík sem hún hefur staðið fyrir á ferlinum eigi að kjósa hana. Það er hverju okkar í sjálfsvald sett að ákveða hvern við kjósum og hvers vegna. En það er eitt skýrasta einkenni kvenhaturs að missa sjónar á greinarmuninum á því að vera ósammála pólitískum leiðtoga í tilteknum málum eða líta svo á að með stefnu sinni, aðgerðum eða afstöðu hafi stjórnmálakonan gerst sek um brot sem ekki verða fyrirgefin. Karlana má skilja út frá nauðsyn hins pólitíska eða list hins mögulega. Konurnar eru oftast sekar um eitthvað.“
Jón heldur skrifunum áfram og birtir pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann deilir Vísis-greininni. Ummælin við greinina sem hann hefur lesið verða honum tilefni til að segja þessa dæmisögu um muninn á þeim viðtökum sem konur og karlar fá er þau stíga fram á opinberu sviði:
„Við lestur ýmissa kommenta rifjaðist upp fyrir mér saga sem góð vinkona mín deildi á Facebook fyrir nokkru. Hún hefur gengið í gegnum kynleiðréttingu sem í fyrstu var mjög hægt ferli. Hún hélt til dæmis framan af óbreyttum klæðaburði í vinnu sinni sem háskólakennari í bandarískum háskóla. En smátt og smátt hurfu ýmis einkenni fyrra lífs og einn daginn breytti hún klæðaburði sínum endanlega. Hún lýsti því síðar skemmtilega hvílík umskipti urðu í kennslunni hjá henni þegar hún birtist sem kona fyrir framan nemendahóp. Mesti munurinn var sá að í stað þess að nemendur einfaldlega tækju mark á því sem hún sagði fór hún að fá aðrar og oft leiðinlegri spurningar en hún hafði reynslu af áður. Iðulega gerðist það líka að nemendur (karlkyns) komu til hennar eftir tíma til að rökræða eða draga í efa eitthvað sem hún hafði sagt í tímanum. Það hafði hún ekki uppplifað áður, vel þekkt og mjög virt á sínu sviði.
Með öðrum orðum: Það var grundvallarmunur á því hvernig nemendur hlustuðu á og meðtóku kennslu hennar sem konu en sem karls.“
Sem fyrr segir hafa þessi skrif Jóns vakið töluverða gagnrýni. Heitar umræður eru undir Facebook-færslu hans og þar segir dagskrárgerðarkonan Snærós Sindradóttir:
„Nú þykir mér þér fatast flugið all verulega Jón. Dæmið sem þú tekur, um trans konu í akademíunni, bendir til þess að þú skiljir ekki hvernig samtvinnun minnihlutahópa virkar. Konan sem þú leggur að jöfnu við það mótlæti sem Katrín Jakobsdóttir mætir núna er hinsegin kona, og ber það líkast til með sér í sínu daglega lífi, og því er fráleitt að ætla að hún mæti sömu eða samskonar erfiðleikum og cis konur með sama fræðibakgrunn. Mismununin sem hún mætir er margfölduð. Þannig virkar samtvinnun.
Katrín Jakobsdóttir er hins vegar sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið í embætti síðan Davíð Oddsson var í stjórnarráðinu.
Hún er valdið.
Að halda því fram að gagnrýni á hana sé uppfull af kvenfyrirlitningu er algjör mislestur. Ég veit ekki betur en að Katrín njóti meira fylgis karla en kvenna – og jafnframt má benda á það að konur verma þrjú efstu sætin fyrir þessar kosningar samkvæmt skoðanakönnunum. Þessi grein heldur því ekki vatni.
Kynjamismunun og kvenhatur er gríðarlega flókið fyrirbæri sem stýrist ekki bara af kynfærunum einum saman. Þar inn í spilar kyntjáning, útlit, framkoma, aldur og bakgrunnur – sem leiðir til þess að við konur verðum fyrir afskaplega mismikilli kynjamismunun. Allar þurfum við að gjalda fyrir kyn okkar, en í afar mismiklum mæli. Ég þekki feril Katrínar Jakobsdóttur afskaplega vel og fullyrði að þó hún hafi mætt óforskammaðri kvenfyrirlitningu, á borð við það að vera kölluð gluggaskraut af ritstjóra Morgunblaðsins, þá hefur hún líka sloppið við kvenfyrirlitningu sem margar stöllur hennar hafa sætt. Fyrir því eru bæði óáþreifanlegar og áþreifanlegar ástæður.
Ég ætla að ganga svo langt að leggja til að þú dragir þessa grein til baka, því þig setur niður fyrir hana.“