Halla Tómasdóttir er efst frambjóðenda til embættis forseta Íslands samkvæmt nýrri könnun Prósent sem var gerð fyrir Morgunblaðið.
Næst kemur Katrín Jakobsdóttir með 22,2 prósent, þá Halla Hrund með 22 prósent og svo Baldur Þórhallsson með 14,6 prósent og Jón Gnarr svo með 9 prósent.
Á sama tíma birti Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands niðurstöður könnunar sinnar þar sem Katrín Jakobsdóttir mælist með mikið forskot, eða 26,3 prósent á meðan Halla Tómasdóttir er næst með 18,5 prósent, Halla Hrund Logadóttir með 18,4 prósent, Baldur Þórhallsson með 16,1 prósent og Jón Gnarr með 9,9 prósent.
Félagsvísindastofnun kannaði hug landsmanna dagana 22-30. maí þar sem fólk var spurt hvern það myndi kjósa sem forseta ef kosið væri í dag. Tekið var 3.250 manna úrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar og alls bárust 1.734 svör.
Um könnun sína segir Félagsvísindastofnun að Katrín höfði helst til eldra fólks og fylgi hennar sé minnst meðal yngsta aldurshópsins. Einkum höfði hún til fólks í Suðurvestur- og Norðvesturkjördæmi. Katrín er vinsælust meðal þeirra sem hyggjast kjósa núverandi ríkisstjórnaflokka. Stuðningur Katrínar kemur frekar jafnt frá fólki á vinstri og hægri væng stjórnmála.
Halla Tómasdóttir er vinsæl hjá unga fólkinu og höfðar meira til þeirra sem staðsetja sig hægra megin í pólitík. Halla Hrund er vinsælli meðal karla en kvenna og höfðar heldur til eldri kjósenda. Hún sækir fylgi sitt nokkuð jafnt á flesta flokka að Vinstri Grænum og Pírötum undanskildum.
Baldur Þórhallsson sækir fylgi sitt frekar til kvenna en karla og höfðar jafnt til allra aldurshópa, nema þeirra elstu. Hann á mestu fylgi að fagna í Norðvesturkjördæmi og sækir fylgi sitt einkum til kjósenda Pírata, en einnig til kjósenda Flokks fólksins og Samfylkingarinnar. Hann höfðar heldur til vinstri fólks en hægri.
Jón Gnarr sækir fylgi sitt einkum til karla. Hann er vinsælastur í Reykjavík og sækir megnið af fylgi sínu til yngri aldurshópa. Stuðningsfólk hans kemur einkum úr hópi Pírata og höfðar hann einkum til vinstri sinnaðs fólks.