CNN segir að fjármálaráðherrar G7 ríkjanna hafi rætt málið á fundi á föstudaginn. Ræddu þeir hvernig hægt er að nota ávöxtun 260 milljarða evra gjaldeyrisvaraforða Rússa, sem var frystur á Vesturlöndum þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, til að styðja við bakið á Úkraínu.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í ræðu, sem hún flutti í Frankfurt í Þýskalandi á fimmtudaginn, að það sé mikilvægt og það liggi á að koma eigum Rússa, sem eru í vörslu Vesturlanda, í umferð til stuðnings Úkraínu.
Miðað er við að lána Úkraínu allt að 50 milljarða dollara og taka framtíðar ávöxtun frystu rússnesku eignanna sem tryggingu fyrir upphæðinni.
Vonast er til að hægt verði að undirrita samkomulag um þetta þegar leiðtogar G7 ríkjanna funda á Ítalíu í næsta mánuði.