fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fréttir

Seldi húsnæðið án þess að láta leigjandann vita

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. maí 2024 14:00

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í máli sem eitt fyrirtæki beindi að öðru fyrirtæki. Fyrrnefnda fyrirtækið hafði leigt skrifstofuhúsnæði af hinu síðarnefnda og krafðist þess að fá tryggingarfé endurgreitt en húsnæðið hafði verið selt án þess að fyrirtækið sem leigði það hefði verið upplýst um söluna.

Í úrskurðinum segir að aðilar málsins hafi gert með sér ótímabundinn leigusamning frá 1. mars 2022.

Í október 2023 hafi fyrirtækið sem leigði skrifstofuhúsnæðið fengið tölvupóst sem innihaldið hafi reikning vegna leigu. Pósturinn hafi hins vegar borist frá fyrirtæki sem fyrirtækið sem leigði þekkti ekki til á nokkurn hátt. Auk þess hafi verið búið að tæma sameiginleg svæði skrifstofunnar, svo sem eldhús, án þess að nokkur samskipti eða tilkynningar þar um hafi átt sér stað.

Í úrskurðinum segir að forsvarsmaður fyrirtækisins sem leigði húsnæðið hafi árangurslaust reynt að ná sambandi við forsvarsmann fyrirtækisins sem húsnæðið hafði upphaflega verið leigt af sem og við nýja eigandann. Svör hafi loks borist viku síðar frá nýja eigandanum. Þá hafi verið upplýst að leigjandinn gæti skilað lyklum næsta dag. Jafnframt hafi það fyrirtæki tilkynnt að fyrirtækið sem áður hefði átt húsnæðið væri hætt að leigja það út en leigjandinn hafði ekki áður fengið upplýsingar um eigendaskiptin. Leigjandinn hafi skilað nýja eigandanum lyklum og hann þá fellt niður reikning vegna frekari leigu. Nýi eigandinn hafi hins vegar beint því til leigjandans að hann yrði að ræða við fyrri eiganda um tryggingarféð.

Vildi ekki trufla hann um of á spítalanum

Leigjandinn hafi árangurslaust reynt að hafa samband við fyrri eiganda en síðar fengið upplýsingar frá nýja eigandanum að fyrri eigandinn væri á spítala. Leigjandinn sagðist því ekki hafa viljað hringja í manninn heldur sent honum skilaboð og þá fengið þau svör að hann yrði á spítala í tvær til þrjár vikur í viðbót. Leigjandinn hafi þá óskað eftir sambandi við umboðsmann fyrri eigandans en engin svör fengið. Fyrri eigandinn hafi staðfest eigendaskiptin en neitað að samþykkja riftun leigusamningsins, þótt samþykki nýja eigandans hefði þegar legið fyrir. Engin frekari svör hafi borist frá fyrri eigandanum.

Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála segir að fyrri eigandinn hafi ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni og ekki skilað greinargerð þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Því verði úrlausn aðeins byggð á sjónarmiðum og gögnum frá leigjandanum.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að samkvæmt húsaleigulögum beri leigusala að tilkynna leigjanda um sölu á viðkomandi húsnæði án ástæðulauss dráttar og ekki seinna en 30 dögum frá undirritun kaupsamnings.

Engin tilkynning hafi hins vegar borist.

Í húsaleigulögum sé einnig kveðið á um að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og ekki seinna en fjórum vikum frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir hvort hann geri kröfu í tryggingarféð. Hafi hann ekki gert slíka kröfu skuli leigusali endurgreiða leigjanda tryggingarféð. Leigusalinn hafi ekki gert neina kröfu í tryggingarféð og beri því að endurgreiða það.

Fyrirtækið sem átti húsnæðið en seldi það án þess að láta fyrirtækið sem leigði það vita á því að endurgreiða tryggingarféð, sem nam 120.000 krónum, auk vaxta og dráttarvaxta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“
Fréttir
Í gær

Ætlaði að refsa 11 ára drengjum fyrir snjóboltakast en endaði fyrir dómi

Ætlaði að refsa 11 ára drengjum fyrir snjóboltakast en endaði fyrir dómi