fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Auður segir elítuna hampa Katrínu – „Getur verið að frambjóðandinn sameini þá voldugu frekar en þjóðina?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. maí 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eftir því sem líður á kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur birtist stöðugt meiri andi eilítisma í kringum hana. Þar með er ekki sagt að það séu samantekin ráð og mögulega hefur hún enga stjórn á því fólki sem vill eyrnamerkja sér hana. En stuðningur svo ólíkra en samhæfðra valdaradda er farinn að hafa fælingaráhrif frekar en hitt,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur í pistli á Heimildinni í dag.

Í upphafi greinarinnar átelur Auður Kolbrúnu Bergþórsdóttur, landsþekktan blaðamann Morgunblaðsins og bókmenntarýni, fyrir pistil hennar í Morgunblaiðnu, en Kolbrún líkti forsetaframbjóðandanum Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur við eltihrelli í Netflix-seríunni Baby Reindeer vegna margendurtekinnar gagnrýni hennar á Katrínu Jakobsdóttur. Taldi Kolbrún gagnrýni Steinunnar hafa á sér eineltisblæ en Auður segir um þetta:

„Er Kolbrún yfir höfuð með getu til að greina samtímann og þá samtímabókmenntir?

Rökstyðja má að í skjóli valds hafi Kolbrún beitt eineltistaktík með þessum skrifum.“

Samtakamáttur elítunnar

Auður segir að í forsetakosningunum í ár afhjúpist samtakamáttur þeirra sem hafa vald og vettvang til að láta heyra í sér. Hinir ýmsu elítuhópar birtast á sviðinu, úr stjórnmálum, auðmagni og ekki síður menningunni. Auður skrifar:

„Þegar nafntogaðir listamenn, áhrifafólk í samfélaginu og stjórnmálum jafnt sem vélvirkjar þaulsetnasta stjórnmálaflokks landsins – sem er vafningsviður innan kerfisins – leggjast á eina sveif með forsetaframbjóðanda, þá á annar sannleikur ekki upp á pallborðið því hann tilheyrir þeim óþægilegu – eins og eltihrellinum í Netflix-seríunniHvers konar merking er gripin og skrumskæld.

En meginstraumurinn er ekki þeirra óþægilegu

Hann er þeirra sem hafa valdið sín megin. Sameiningarkraftur afla svo kröftugra að þau útmá annað.“

Auður segir að stuðningur fulltrúa almannavarna úr Covid-faraldrinum hafi á sér það yfirbragð að verið sé að segja þjóðinni að gera það sem er skynsamlegt og vera ekki með neina vitleysu:

„Karlmenn sem voru ásjóna guðföðurs þjóðarinnar í Covid-faraldrinum stíga nú fram og lýsa yfir stuðningi við fyrrverandi forsætisráðherra, eins og þeir gáfu lýðnum skipanir vegna almannavarna í lýðheilsumálum fyrir ekki svo löngu síðan. Þegar allir hlýddu því lífið lá við að hlýða herra Almannavörnum

Þeir birtust sem ásjóna skynseminnar. Andstæða ruglsins. Hið rétta.“

Partýið verður að halda áfram

Stuðningur valdafólks úr Sjálfstæðisflokknum og VG hefur á sér blæ partýstemningar þar sem augunum er lokað fyrir brýnum vandamálum. Þannig má a.m.k. túlka orð Auðar er hún skrifar:

Vélvirkjar Sjálfstæðisflokksins baka köku, orðræðu og vídeó, sumir fyrir opnari tjöldum en aðrir, vanir að redda Bjarna Ben og meðvitaðir um að ef forsetinn þarf að skreppa úr landi getur Bjarni í ofan á lag verið handhafi forsetavaldsins. Og sprautur í VG hlæja í samtakamætti með Sjálfstæðisflokknum sem er löngu orðinn þeim eiginlegur. Mogginn er jafn þægilega retró og Friðarhúsið á Snorrabraut; þetta skemmtilega land nostalgíunnar er þeirra og útlendingafrumvarpið hefur séð til þess að það er opnara fyrir norskum fyrirtækjum að þurrausa firðina en fólki í neyð sem raskar við eitís-ásýnd þess.

Við þurfum hvorki að vesenast í veiðileyfagjöldum né hafa áhyggjur af því að standa ekki við skuldbingar vegna loftlagshamfara því svo lengi sem partíið heldur áfram verður Ísland veröld sem var. Að vísu með dauða firði, húsnæðismarkað sem útheimtir þrjú störf á sjálfstætt foreldri og hættulega götótt heilbrigðiskerfi, svo eitthvað sé upptalið. En bjóðum bara Kára Stef í partíið líka!

Og fáum Össur Skarphéðins til að vakta netið meðan Víkingur Heiðar og Bubbi Morthens leika hugljúfa ballöðu og Guðni Ágústsson hrópar: Klöppum fyrir næsta forseta: Katrínu! Um leið og einhverjir kvarta undan því að eldri karlar séu að ávíta yngra fólk fyrir aðrar skoðanir. Þið þarna sem baslið á húsnæðismarkaði eða eigið ekki fyrir mat í lok mánaðar þó að þið séuð útkeyrð af vinnu verðið að skilja að vitið býr í valdinu! Líka fagurfræðin. Þau sem mótmæla því eru eltihrellar í skáldsögu eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

Góðborgararnir flykkjast á bak við Katrínu

Auður segir að þó að góðborgarar hafi ólík sjónarmið þá standi þeir saman þegar á reynir. Góðborgarar séu fólk sem er á þægilegum stað í millistéttinni og hefur tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Núna í aðdraganda forsetakosninganna virðist henni sem elítur í hinum fjölbreyttustu myndum hafi sameinast að baki Katrínu. Hún veltir því hins vegar fyrir sér hvort Katrín sameini frekar hina voldugu en þjóðina:

„Getur verið að frambjóðandinn sameini þá voldugu frekar en þjóðina? Þá sem búa yfir auðmagni og félagsauði í heimi lista, fjármála, viðskipta, stjórnmála, menngargeiranum og á vettvangi fjölmiðla. Þá sem hafa áheyrn.“

 Grein Auðar í heild má lesa með því að smella hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“