Lögreglan varar við fjárkúgun á netinu, það sem á ensku kallast sextortion, en tilkynningar um slíka fjárkúgun berast til lögreglunnar.
Í færslu á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru glæpamenn sagðir „sigla undir fölsku flaggi og þykjast vera aðrir á samfélagsmiðlum, stofna til kynna við fólk og ávinna sér traust. Það sem þeir sækjast eftir eru myndir af kynfærum eða ámóta myndefni.“
Þegar einstaklingar hafi síðan sent slíkar myndir í góðri trú breytist allt.
„Þegar óprúttnir aðilar eru komnir með slíkar myndir þá breytist allt og hótanir um myndbirtingu byrja að berast með tímapressu. „Þú verður að borga 500 dollara með rafmynt á veski innan 12 klukkustunda eða við sendum þetta á vinalistann þinn og birtum á netinu.“ Tilgangurinn getur líka verið að sækjast eftir meira myndefni en oftast eru það peningar.“
Bent er á að skilaboð af þessu tagi geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið brotaþola miklu álagi.
„Hér eru þrjár mikilvægar reglur, sem brotaþolar eru beðnir um að hafa í huga:
1. Alls ekki senda greiðslu
Svindlararnir munu þá vita að það er hægt að kúga þig og biðja um meira og meira. Það sleppur enginn með því að borga.
2. Hættu öllum samskiptum
Það reynist best að loka alveg á samskipti, ekki svara neinu. Öll samskipti eru hvatning fyrir glæpamennina og staðfesting að þeir hafa enn aðgang að brotaþola. Lokaðu á samskipti, blokkaðu viðkomandi á samfélagsmiðlum og tilkynntu um aðilana.
3. Segðu frá þessu og hafðu samband við lögreglu
Sendu okkur póst á abending@lrh.is og við munum leiðbeina þér eftir bestu getu.
Ekki loka þig frá öðrum og segðu foreldrum og vinum frá þessu. Þau munu standa með þér og eru skilningsríkari en þú heldur. Þú hefur ekki gert neitt rangt og skömmin er ekki þín heldur þeirra sem beita þessari aðferð í glæpsamlegum tilgangi.
Minnum líka fólk á að vera almennt á verði fyrir skrítnum samskiptum við ókunnuga.“