fbpx
Sunnudagur 16.júní 2024
Fréttir

Vinnumálastofnun mátti ekki neita fólki um atvinnuleysisbætur bara því þau voru eigendur, framkvæmdastjórar, stjórnarmenn eða prókúruhafar fyrirtækja í virkum rekstri

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. maí 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eignarhald og aðkoma að rekstri fyrirtækja leiðir ekki sjálfkrafa til þess að fólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta segir úrskurðarnefnd velferðarmála í nýlegum úrskurðum sínum þar sem ákvarðanir Vinnumálastofnunar í málum einstaklinga sem höfðu aðkomu að rekstri fyrirtækja.

Þýðir ekki sjálfkrafa að bótaréttur sé ekki til staðar

Úrskurðir nefndarinnar frá janúar fram til apríl á þessu ári voru birtir í vikunni. Þar leituðu réttar síns nokkrir einstaklingar sem áttu það sameiginlegt að hafa þegið atvinnuleysisbætur samhliða því að eiga hlut í fyrirtæki í virkum rekstri. Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur til þeirra og krafði þá um meintar ofgreiðslur. Eignarhaldið var á bilinu 15-100 prósent og rökstuddi Vinnumálastofnun ákvörðun sína að það samrýmist ekki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar að „eigandi, stofnandi, stjórnarformaður, prókúruhafi og framkvæmdastjóri tiltekins félags í fullum rekstri þiggi atvinnuleysisbætur“. Fannst stofnuninni þetta sérstaklega eiga við ef téð félög voru með starfsmenn í vinnu hjá sér.

„Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Eigandi fyrirtækis sem ráði starfsfólk til starfa til að sinna rekstri þess í stað þess að sinna slíkum málum sjálfur geti ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að mati Vinnumálastofnunar. Í því samhengi skipti ekki máli að mati Vinnumálastofnunar hvort umrædd félag hafi skilað hagnaði.“

Úrskurðarnefndin rakti að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfi lagaákvæði sem kveða á um skilyrði þess að eiga rétt á bótum frá hinu opinberlega að vera skýr og ótvíræð. Ákvarðanir stjórnvalda þurfi að eiga sér stoð í lögum og þá sérstaklega ef um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða. Af lögum um atvinnuleysistrygginga komi ekki skýrt fram að það eitt að eiga hlut í einkahlutafélagi, eða það að koma að rekstri slíks félags með einhverjum hætti, valdi því að fólk telst sjálfkrafa ekki virkt í atvinnuleit. Þar með þurfi að skoða hvert tilfelli fyrir sig og meta hver aðkoma viðkomandi er að rekstrinum og hversu umfangsmikil hún sé. Vinnumálastofnun hafi ekki framkvæmd slíkt mat í neinum þeirra tilvika sem lögð voru fyrir nefndina og því var ákvörðun stofnunarinnar í öllum tilvikum felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.

Sama niðurstaða í fimm málum

Eitt tilvikið varðaði konu sem átti hlut í tveimur fyrirtækjum. Annars vegar átti hún 15 prósent hlut, en kvaðst ekki koma að rekstrinum með neinum hætti. Hins vegar var um að ræða fyrirtæki í ferðaþjónustu sem sé aðeins með starfsemi á sumrin. Vinnumálastofnun horfði til þess að bæði fyrirtækin væru með starfsmenn á launaskrá. Konan hafi ekki upplýst stofnunina um eignarhlut sinn og samkvæmt hlutafélagaskrá væri hún stofnandi, prókúruhafi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í öðru félaginu og skráður stofnandi í hinu. Úrskurðarnefndin rakti að þetta leiddi ekki sjálfkrafa til þess að konan væri ekki í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun þarf því að taka málið aftur fyrir.

Annað tilvik varðaði konu sem hafði árið 2019 stofnað litla æfingastöð með vinkonu sinni. Hún átti að auki sjálf og rak samskonar fyrirtæki um tíma en sökum heilsu þurfti hún að hætta rekstri. Hún hafi þá farið í nám til að mennta sig á nýju sviði en gengið brösuglega að finna vinnu í kjölfarið. Hún hafi enga aðkomu að rekstri fyrirtækjanna. Vinnumálastofnun taldi þó að konan ætti að teljast í 25 prósent vinnu fyrir fyrirtæki sín og bæri að endurgreiða 25 prósent þeirra bóta sem hún hafði þegið. Hún væri stofnandi og prókúruhafi beggja félaganna og hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um stöðuna. Þar með gæti hún ekki talist í virkri atvinnuleit. Aftur felldi úrskurðarnefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi og gerð stofnunni að taka málið aftur fyrir og meta aðstæður heildstætt.

Tvö mál vörðuðu karlmenn sem höfðu misst vinnur sínar í COVID og stofnað fyrirtæki eftir árangurslausa atvinnuleit. Þeir hafi fengið ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun verið á bótum í virkri atvinnuleit en falið öðrum að vinna á styrknum fyrir fyrirtækið. Annar maðurinn sagðist engin laun hafa fengið frá rekstri sínum heldur nýtt atvinnuleysisbæturnar til að draga fram lífið á meðan reksturinn hélt sér á floti með starfsmanni á ráðningarstyrk. Hinn maðurinn vann 20 prósent hjá sínu fyrirtæki ásamt hinum stofnandanum og svo var starfsmaður á ráðningarstyrk sendur í þau fáu verkefni sem buðust. Báðir sögðust þakklátir fyrir þessa ríkisaðstoð sem hafi komið þeim í gegnum erfitt tímabil en töldu sig báðir hafa aðhafst innan skilyrða Vinnumálastofnunar og ramma laga. Úrskurðarnefndin taldi að í hvorugu tilviki hafi Vinnumálastofnun lagt heildstætt mat á aðstæður heldur byggt ákvarðanir sínar á því einu að þessir menn væru eigendur fyrirtækja.

Loks var um að ræða mann sem var einn skráður eigandi félags í fullum rekstri. Hann tók þó fram að hann sjálfur hefði litla aðkomu að rekstrinum heldur væri um að ræða fyrirtæki sem snerist um vinnu eiginkonu hans. Vinnumálastofnun rakti að samkvæmt opinberri skráningu væri maðurinn eini eigandi, stofnandi, stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Líkt og í fyrri málum taldi úrskurðarnefndin þó að þetta eitt þýddi ekki að maðurinn gæti ekki talist í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun hafi þurft að leggja heildstætt mat á aðstæður og stofnunni því gert að taka málið fyrir að nýju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Norðurvígi skilgreind sem hryðjuverkasamtök – Með starfsemi í Reykjavík og Akureyri

Norðurvígi skilgreind sem hryðjuverkasamtök – Með starfsemi í Reykjavík og Akureyri
Fréttir
Í gær

Heimsókn í náttúrulaugarnar kostar sitt – Bláa lónið langdýrast – Jarðböðin við Mývatn og Fontana ódýrust

Heimsókn í náttúrulaugarnar kostar sitt – Bláa lónið langdýrast – Jarðböðin við Mývatn og Fontana ódýrust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gæsluvarðhald yfir eiganda sverðs framlengt – Talið nauðsynlegt til að verja brotaþola fyrir árásum hans

Gæsluvarðhald yfir eiganda sverðs framlengt – Talið nauðsynlegt til að verja brotaþola fyrir árásum hans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðni leiðir sögugöngu um Þingvelli

Guðni leiðir sögugöngu um Þingvelli