Guðrún Þóra Arnardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri lífskoðunarfélagsins Siðmenntar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu félagsins.
Guðrún hefur gegnt starfi verkefnastjóra athafnaþjónustu hjá félaginu síðastliðið ár. Hún er menntaður lögfræðingur frá HÍ. Hún hefur áður starfað sem vef- og markaðsstjóri Sorgarmiðstöðvar og var stjórnarmeðlimur og varaformaður Barnaspítalasjóðs Hringsins. Guðrún Þóra hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og félagsstörfum við markaðsmál og framþróun félaga.
Eyjólfur Örn Snjólfsson sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri Siðmenntar fyrr í mánuðinum. Hafði hann gegnt starfinu í eitt ár. Á undan honum var Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri félagsins í sjö mánuði og hætti síðan störfum. Framkvæmdastjóri á undan henni var Siggeir Ævarsson en hann var rekinn árið 2022.
DV fjallaði nokkuð um væringar innan félagsins í fyrravor.
Var þar fjallað um mikla óánægju Siggeirs með uppsögn sína og um erfiða fjárhagsstöðu félagsins. Tap varð á rekstrinum upp á rúmlega 7,5 milljónir króna árið 2022. Mikill bati hefur orðið á rekstrinum undir stjórn Eyjólfs en samkvæmt heimildum DV er samskiptavandi talinn eiga hlut í uppsögn hans.
Í svari við fyrirspurn frá DV sagði Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, að hún gæti ekki tjáð sig um einstök starfsmannamál en staðfesti að Eyjólfur hefði sagt upp störfum og Guðrún tekið við starfinu. Aðspurð sagði hún einnig að rekstur félagsins hefði batnað og vísaði í ársreikning. Töluverður hagnaður varð á rekstri félagisns árið 2023 en ársreikninginn má sjá hér.