Í október 2022 varð mikil sprenging á Kerch-brúnni, sem tengir Krímskaga við rússneska meginlandið. Brúin skemmdist mikið en Rússum tókst að gera við hana. Nú hafa þeir opinberað nýjar upplýsingar um árásina.
Árásin var þungt högg fyrir Vladímír Pútín, forseta, sem hefur miklar áætlanir á prjónunum varðandi Krím og hefur gert brúna að einu metnaðarfyllsta verkefni sínu.
Það er rússneski miðillinn Komersant, sem hefur yfirleitt góð sambönd inn í rússneska stjórnkerfið, sem hefur fengið aðgang að niðurstöðum rannsóknar yfirvalda á sprengingunni.
Segir miðillinn að sprengja, sem var meðal annars gerð úr flugskeytaeldsneyti og litlum málmstykkjum, hafi verið notuð við árásina. Svo mikið eldsneyti var í henni að afl sprengingarinnar svaraði til þess að tíu tonn af TNT hefðu verið sprengd.
GPS-stýrðum kveikibúnaði var komið fyrir á sprengjunni. Hann fór í gang þegar sprengja kom á ákveðinn stað á brúnni.
Aðgerðin, sem var mjög flókin í framkvæmd, fól einnig í sér að flutningabílinn, sem sprengjunni var komið fyrir í, hóf ferð sína í Búlgaríu, ók þaðan til Georgíu og síðan Armeníu áður en förinni var heitið til Krím. Þetta virðist hafa verið gert til að forðast að athygli yfirvalda beindist að honum.
Svo virðist sem ökumaður flutningabílsins hafi ekki vitað af sprengjunni.
Í myndbandinu hér fyrir neðan sést þegar sprengjan sprakk.
The Kerch (Crimean) bridge was blown up in Oct 2022 by solid rocket fuel disguised as polyethylene film – explosion was equivalent to 10 tonnes of TNT
The detonator, was hidden under the film, and was triggered by a GPS navigator signal “at the moment of passing a predetermined… pic.twitter.com/e90yPV2Lp8
— KT "Special CIA Operation" (@KremlinTrolls) May 4, 2024
Sprengingin eyðilagði hluta af veginum um brúna og járnbrautarteinana.
Rússnesk yfirvöld sökuðu úkraínsku leyniþjónustuna um að hafa staðið á bak við sprenginguna. En þessu hafa Úkraínumenn ekki svarað.
Heimildarmenn innan úkraínska hersins og leyniþjónustu landsins segja að ráðist verði á brúna á nýjan leik á þessu ári. Til dæmis birti sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum nýlega mynd á samfélagsmiðlinum X af nokkrum tegundum brúa. Getur hver svo lesið í þá færslu og hvað sendiherrann er að gefa í skyn.
2024 list of 6 Main Types of Bridges
•Arch Bridges.
•Cantilever Bridges.
•Cable-Stayed Bridges.
•Suspension Bridges.
•Tied-Arch Bridges.
•Kerch Bridges. pic.twitter.com/WVNP79VAjw— Sergiy Kyslytsya 🇺🇦 (@SergiyKyslytsya) May 1, 2024