Mikið uppnám varð á æfingu ísraelska atriðsins í Eurovision í gær. Heyrðist mikið af bauli, hrópum og köllum á meðan Eden Golan flutti atriði sitt.
Öll umræða og fréttir af Eurovision í Malmö halda áfram að vera á neikvæðu nótunum. Eftir að skipuleggjandinn EBU leyfði Ísraelum að taka þátt, þrátt fyrir innrásina á Gaza ströndina, hafa verið stöðug mótmæli og hörð gagnrýni á keppnina.
Er EBU meðal annars sakað um tvískinnung í ljósi þess að Rússum var vísað úr keppninni eftir innrásina í Úkraínu. Þá hefur áhorf hrunið í ljósi þess að margir sniðganga keppnina.
Ísraelar stíga á svið í kvöld og skipuleggjendur eru við öllu búnir. Á æfingunni í gær var baulað hátt á atriðið og hrópað var: „Frjáls Palestína!“ Í frétt breska blaðsins Mail Online segir að andrúmsloftið hafi verið ömurlegt.
Ísraelska söngkonan hefur að mestu verið inni á hótelherbergi en hún hefur fengið fjölmargar hótanir. Í yfirlýsingu á sunnudag sagðist hún vera stolt af því að koma fram fyrir hönd landsins síns.
Fastlega er gert ráð fyrir hörðum mótmælum í Malmö í kvöld. Hefur auka lögreglulið verið kallað inn frá bæði Danmörku og Noregi. Sænsk lögregluyfirvöld hafa lýst því yfir að sumir lögreglumennirnir verða vopnaðir hríðskotarifflum. Að sögn Petra Stenkula, lögreglustjóra Malmö borgar, þá er lögreglan á fjórða viðbúnaðarstigi af fimm.
Að sögn sænska ríkissjónvarpsins, SVT, er Eurovision talið álitlegt skotmark í ár fyrir íslömsk hryðjuverkasamtök. Í 23 blaðsíðna áhættumati komi fram að ýmsar aðrar hættur steðja að, svo sem að mótmæli fari úr böndunum og að netárásir verði notaðar til þess að rjúfa útsendinguna.
„Hér í Svíþjóð er lögreglan að fást við mjög flókið viðfangsefni, en við teljum að við séum vel undirbúin,“ sagði Stenkula.
Öryggisgæslan í tónleikahöllinni er gríðarleg. Gestir þurfa að fara í gegnum öryggisleit svipaða og er á flugvöllum. Enginn má koma með neina poka eða töskur inn í höllina.
EBU hefur lítið gert til þess að lægja öldurnar. Auk þess að leyfa Ísraelum að taka þátt þá hefur verið bannað að flagga palestínska fánanum í höllinni.
Ekki nóg með það þá var palestínsk-sænski tólistarmaðurinn Eric Saade skammaður fyrir að bera palestínskan klút í atriði sínu í undankeppninni á þriðjudag. Í yfirlýsingu EBU segir að samtökin harmi að Saade hafi borið klútinn utan um hendina.
„Eurovision söngvakeppnin er sjónvarpsþáttur í beinni útsendingu. Öllum þátttakendum var gert ljóst hverjar reglurnar voru og við hörmum það að Eric Saade hafi ákveðið að setja þennan ópólitíska þátt í uppnám,“ segir í yfirlýsingunni sem hefur fallið í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum.