Framganga blaðamannsins Stefáns Einars Stefánssonar, hjá Morgunblaðinu, við forsetaframbjóðendur hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarið. Einkum framganga hans í viðtölum við Baldur Þórhallsson og Höllu Hrund Logadóttur.
Umræðan hefur verið hörð í garð Stefáns þar sem spjótum er beint að vinnustað hans, fjölskyldu og stjórnmálaskoðunum. Stefán gagnrýndi í dag að Blaðamannafélagið hafi ekki látið málið til sín taka og hefur formaður félagsins nú svarað kallinu.
Stefán Einar tjáði sig um gagnrýnina á Facebook í dag. Þar benti hann á að rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir hafi sagt viðtal hans við Höllu Hrund nýja „ósiðlega lægð“ íslenskrar blaðamennsku. Eins hafi Kristín séð sig nauðbeygða að blanda eiginkonu Stefáns inn í málið og „níða af henni skóinn“, eins og Stefán orðar það. Blaðamaðurinn segir að þrátt fyrir gagnrýnina hafi viðtöl hans fengið fádæma viðtökur og hann geti ekki annað en þakkað auðmjúkur viðtökurnar.
„Eitt er þó satt og rétt í pistli rithöfundarins hugumprúða. Ég ek um á skriðdreka. Og honum verður ekið á fullri fart í gegnum þessar kosningar, rétt eins og í síðustu alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Vopninu er beitt í þágu tjáningarfrelsis og lýðræðis. Kommar á borð við Kristínu Helgu hafa alltaf haft horn í síðu þeirra gilda. jafnvel þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega.“
Stefán bendir á að þrátt fyrir áberandi árásir á bæði hann og fjölskyldu hans vegna fréttaflutnings hafi Blaðamannafélag Íslands ekki látið málið til sín taka. Þrátt fyrir að félagið standi nú fyrir herferð um mikilvægi blaðamennsku.
„Það er nefnilega með það ónýta félag að það tekur aldrei til varna fyrir Morgunblaðið. Það er vegna þess að Blaðamannafélagið er ekki í blaðamennsku, það er bara í hreinni vinstri pólitík. En það er allt í lagi. Mogginn þarf ekki aðra sér til varnar. Mogginn á sína skriðdreka sjálfur.“
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, hefur nú svarað Stefáni Einari. Það sé skylda hennar að verja blaðamenn þegar að þeim er sótt með ómaklegum hætti. Jafnvel þegar þeir eru ekki félagsmenn Blaðamannafélagsins, sem Stefán er einmitt ekki.
Það sé áhyggjuefni hversu mikil heift og hatur einkenni umræðuna í samfélaginu þessi misserin. Þetta bjóði blaðamönnum upp á óboðlegar vinnuaðstæður. Hafi fólk athugasemdir við fréttaflutning þá séu þeim leiðir færar til að leita með umkvartanir sínar, svo sem til siðanefndar Blaðamannafélagsins.
Færsla Sigríðar:
„Ég fékk ábendingu um að Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hafi á Facebook-síðu sinni kallað eftir stuðningi Blaðamannafélags Íslands vegna þeirra árása sem hann hefur orðið fyrir vegna viðtals við Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðanda. Ég er ekki vinur hans á Fb og sá því ekki status hans fyrr en mér var bent á hann. Þar sá ég líka skjáskot af vægast sagt ömurlegum skilaboðum sem honum voru send.
Ég lít á það sem skyldu mína að verja blaðamenn þegar að þeim er sótt með ómaklegum hætti og svara því að sjálfsögðu ákalli Stefáns Einars, jafnvel þótt hann sé ekki félagi í stéttarfélagi blaðamanna. Það er algjörlega ólíðandi að sótt sé að blaðamönnum vegna umfjöllunar þeirra. Enn ömurlegra er að sjá þegar ráðist er gegn fjölskyldum blaðamanna, líkt og þarna er gert.
Heiftin og hatrið í samfélagsumræðunni í dag er mikið áhyggjuefni. Blaðamenn eiga ekki að þurfa að starfa við þær aðstæður að mislíki fólki umfjöllun þeirra ráðist það að þeim með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Það væri óskandi að þau sem hafa eitthvað við umfjöllun blaðamanna að athuga leitaði úrlausna á umkvörtunarefni sínu eftir þartilbærum leiðum.
Blaðamannafélagið starfrækir siðanefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Í stað þess að ausa óhróðri yfir blaðamenn og fjölskyldur þeirra, Stefán Einar sem aðra, hvet ég fólk til þess að kynna sér siðareglur BÍ og senda kæru til siðanefndar BÍ telji það að umfjöllun hafi brotið gegn þeim. Ofbeldi er í einu máli sagt ólíðandi.
Auk þess býð ég Stefán Einar velkominn í félagið og hvet hann jafnframt til þess að taka þátt í starfsemi þess og leggja baráttu félagins í þágu blaðamennsku og stéttarinnar lið.“