Langþráð fréttaskýringaþáttur Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um umdeilda lóðasamninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin var sýndur í Kastljósi í gær. Eins og alþjóð veit varð mikið uppnám á dögunum þegar ritstjórn fréttaskýringarþáttsins Kveiks hafnaði að sýna þáttinn á dögunum og var Maríu Sigrúnu í kjölfarið vikið úr teyminu.
Þátturinn var athyglisverður en í honum kom meðal annars fram að verðmæti byggingarréttar á lóðunum, sem olíufélögin fengu endurgjaldslaust, eru allt að 10 milljarðar króna. Þá var allt ferlið við sjálfa samninganna sveipað leyndarhyggju og minnihluta borgarstjórnar haldið í myrkrinu varðandi það. Var kallað eftir því að sjálfstæð úttekt yrði gerð á samningagerðinni og hvort að hagsmunir borgarinnar hafi verið fyrir borð bornir.
Einn þeirra sem var ánægður með þáttinn var Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra, sem sagði hann Maríu Sigrúnu og fréttastofu RÚV til sóma. Hann taki hatt sinn ofan fyrir Kastljósi að sýna þáttinn en setji hann svo aftur upp þegar honum verði hugsað til Kveiks og þeirra sem stjórna honum.
„Hvers vegna í ósköpunum var þessum fréttaskýringarþætti ekki tekið fagnandi? Og enn þarf að spyrja hvernig á því standi að ristjórn Kveiks hafi ekki fyrir löngu síðan tekið þetta furðulega hneykslismál til umfjöllunar. Er til of mikils ætlast að ritstjórn Kveiks svari þessu opinberlega?“ skrifar Ögmundur.
Hann segir ekki hægt annað en að undrast þá eitruðu pillu sem send var til Maríu Sigrúnar frá Ingólfi Bjarna Sigfússyni, ritstjóra Kveiks, um að hún væri ekki hæfur rannsóknarblaðamaður og ætti að halda sig við að lesa fréttir.
„Mikið rétt, það gerir hún vel, en ekki síður vel stendur hún sig sem afbragðsgóður fréttamaður, vandvirk og órög. Það hefur nú áþreifanlega sannast – eina ferðina enn,“ skrifar Ögmundur.
Þá segir ráðherrann fyrrverandi að það blasi við að skoða þurfi þessa samninga og ferlið við þá betur.
„Ég hef fylgst eins vel með þessu máli eins og kostur hefur verið en upplýsingar hafa hingað til verið af skornum skammti. Þakkarvert hefði verið að fá þennan þátt þegar þetta makalausa mál var í bígerð, áður en olíufélögunum voru færðar lóðirnar til ráðstöfunar. Leynilegu samningarnir «einkaréttarlegs eðlis», sem við heyrðum af í Kastljósþættinum, minna óneitanlega á Icesave leyndina á sínum tíma. Upphaflega var reynt að koma í veg fyrir birtingu fyrsta Icesave samningsins sem þinginu var hins vegar ætlað að samþykkja nánast óséðan. Síðan móðguðust menn ógurlega þegar á þetta var minnt,“ skrifar Ögmundur.
Skoða þurfi hverju sé hægt að hnika tilbaka varðandi samninga.
„Ég skildi það svo að hvergi stæði í samningum við olíufélögin að þau hefðu eignast byggingaréttinn. Það væri hins vegar gengið út frá því! En ef það ekki stóð skýrum stöfum þá er varla hægt að ganga út frá því að ígildi eignarréttar væri þeirra. Eða hvað? Hvað sem úr verður þá þarf að fara í saumana á þessu máli öllu. Það gengur ekki fyrir Reykjavíkurborg að segjast vera að leysa loftslagsvandann í heiminum þegar hún setur eignir borgarbúa í hendur braskara því þannig gangi málin hraðast fyrir sig! Ég held að það hljóti að vera svo að fleiri hafi sett hljóða þegar borgarstjóri hafði lokið máli sínu á þessum nótum. Þetta var inntakið þegar á hann var gengið,“ skrifar Ögmundur.
Segir hann að lokum að ritstjórn Kveiks ætti að viðurkenna mistök sín og bjóða Maríu Sigrúnu aftur velkomna í hópinn. Ekki sé stætt á öðru.
Rétt er að geta þess að Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, birti yfirlýsingu í kjölfar uppnámsins út af brotthvarfi Maríu Sigrúnar. Þar sagði hann að að fullyrðingar um að annarleg sjónarmið hefðu ráðið för varðandi ástæðu þess að Kveikur hefði ekki sýnt þáttinn.
„Í dag og í gær hafa birst fréttir þess efnis að fréttaskýring sem var í vinnslu fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik og átti að sýna síðasta þriðjudag hafi verið tekin af dagskrá og jafnframt látið að því liggja að annarleg sjónarmið búi að baki. Það á ekki við nein rök að styðjast. Fréttaskýringin, sem hafði verið unnið að um skeið, var ekki fullbúin til sýningar í síðasta þætti Kveiks þennan vetur. Því buðu stjórnendur fréttastofu RÚV að málinu yrði fundinn farvegur í Kastljósi, næðist að klára að vinna það. Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta starfsmannamál eða vitna í trúnaðarsamtöl,“ sagði Heiðar Örn í yfirlýsingunni.