Einn undarlegasti, og lítt ábatasamasti, þjófnaður átti sér stað í borginni Sacramento í Kaliforníu fyrir skemmstu. Þar klæddi maður sig í dulargervi sem poki til þess að stela sendingu fyrir framan heimili.
Sacramento búanum Omar Gabriel Munoz brá heldur betur í brún þegar hann athugaði myndband á öryggismyndavélinni við útidyrnar föstudaginn 29. mars. Þegar hann áttaði sig á því hvað hann hefði séð reiddist hann fyrst en sprakk svo úr hlátri.
Í myndavélinni mátti sjá mann klæddan eins og svartan ruslapoka smokra sér laumulega upp að húsinu. Svo fara yfir og nappa pakka sem var fyrir framan húsið.
„Ég sá pokann koma að hurðinni. Ég hélt að einhver væri að grínast í mér,“ sagði Munoz við fréttastofuna ABC.
Þjófnaðurinn var ekki mikill skaði fyrir Munoz. Í pakkanum voru tvö hleðslutæki fyrir farsíma. Heildarverðmætið var í kringum 10 dollara, eða 1.400 krónur.
„Fyrst varð ég svolítið reiður, en svo horfði ég á myndbandið aftur og hló. Fólk hefur mikla sköpunargleði,“ sagði Munoz.