fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. apríl 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, er ómyrkur í máli um stöðu íslenskra heimila og segir að það sé blaut tuska framan í venjulegt fólk þegar því er haldið fram að hér sé allt í himnalagi.

Sigmar gerir þetta að umtalsefni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

„Það er al­geng­ur mis­skiln­ing­ur að strút­ar stingi höfðinu í sand­inn þegar þeir standa frammi fyr­ir ógn. Orðatil­tækið og mis­skiln­ing­ur­inn geng­ur út á að hægt sé að úti­loka allt óþægi­legt með því einu að horfa annað. En þótt stærstu fugl­ar heims séu sak­laus­ir af því að af­neita vond­um staðreynd­um með því að bora höfðinu ofan í jörðina þá tíðkast sú sér­kenni­lega hátt­semi í óeig­in­legri merk­ingu hér á landi. Stjórn­völd hafa nán­ast gert það að list­grein að líta und­an þegar óþægi­leg­ur veru­leik­inn bank­ar upp á,“ segir Sigmar.

Sligast undan verðbólgu og vaxtaokri

Hann segir að þegar rætt er um fjárlög og fjármálaáætlun glymji í eyrum þeirra sem sitja á Alþingi að staða heimilanna sé góð.

„Van­skil eru ekki mik­il, er sagt. Meðal­töl­in eru fín og jafn­vel vitnað í ein­hver fabríkeruð gröf með ótrú­lega hent­ug­um upp­hafspunkti. Þau eiga að sýna að þótt langvar­andi verðbólg­an sé svim­andi há og góð rauðvíns­pró­senta á of­ur­vöxt­un­um séu fjöl­skyld­ur lands­ins bara í fín­um mál­um. Í raun eng­in ástæða til að ergja sig á þessu efna­hags­lega skrúfstykki. Svona mál­flutn­ing­ur er blaut tuska fram­an í venju­legt fólk, millistétt­ina, sem er að slig­ast und­an verðbólgu og sér­ís­lenska vaxta­okr­inu. Af­borg­an­ir af hús­næði hafa hækkað um 100-200 þúsund á mánuði og verðtryggðu lán­in hækka hratt.“

Sigmar bendir á niðurstöður nýrrar könnunar sem sýnir að vextir og verðbólga hafi mik­il áhrif á heim­il­is­bók­hald 70 pró­senta heim­ila. Ein­ung­is 15 pró­sent segja áhrif­in lít­il.

„Heim­il­in skulda um 100 millj­arða í yf­ir­drátt­ar­lán sem eru ekk­ert annað en illa dul­in van­skil á ófyr­ir­leitn­um afar­kjör­um. Vext­irn­ir eru 17 pró­sent! Slík vaxtapín­ing af 100 millj­örðum er vissu­lega mik­il búdrýg­indi fyr­ir fjár­mála­kerfið en ekk­ert annað en klafi um háls heim­il­anna. Það þekkja all­ir sem neyðst hafa til að taka yf­ir­drátt, enda vext­irn­ir nær því sem handrukkarar ákv­arða ein­hliða á svarta markaðnum en því sem tíðkast í siðuðum sam­fé­lög­um.“

Sigmar heldur áfram:

„Þetta er hálf­gerð sturlun. Auðvitað er það svo að 100 millj­arða yf­ir­drátt­ur heim­il­anna, samof­inn þrálátri verðbólgu og stýri­vöxt­um sem hvergi eru hærri í Evr­ópu nema í Rússlandi og Úkraínu, hef­ur gríðarleg áhrif á heim­il­is­bók­haldið. Þeir sem halda öðru fram eru bú­sett­ir í ein­hverj­um hliðar­veru­leika sem er hand­an skynj­un­ar al­menn­ings sem fær kvíðak­ast í hvert skipti sem skott­ast er út í búð eða heima­bank­inn opnaður.“

Krónan atvinnuskapandi fyrir fjármálastofnanir

Sigmar segir að staða heimilanna sé ekki góð og fólk framfleyti sér ekki í vafasömum línuritum stjórnvalda. Þá sé það lít­il hugg­un að geta flúið enda­laust á milli lána­forma með hús­næðislán­in sín. Þeir sem kjósa að lækka af­borg­an­irn­ar séu nefni­lega um leið að hækka lán­in sín harka­lega í þess­ari verðbólgu.

„Verðtrygg­ing­in sér til þess en hún er þjóðarrétt­ur­inn á hlaðborði þeirra fjöl­breyttu fjár­mála­af­urða sem ís­lenska krón­an hef­ur getið af sér. Það er nefni­lega svo að þótt krón­an fari ein­stak­lega illa með ís­lensk heim­ili og fyr­ir­tæki þá er hún at­vinnu­skap­andi fyr­ir fjár­mála­stofn­an­ir. Þar rík­ir aðdá­un­ar­verður ný­sköp­un­ar­vilji þegar hanna þarf úrræði og ný lána­form fyr­ir skuld­setta Íslend­inga sem flýja ör­vænt­ing­ar­full­ir úr einu víg­inu í annað und­an vel þekkt­um ein­kenn­um krónu­hag­kerf­is­ins. Í þeirri þjón­ustu við skuld­ara hef­ur öll­um aðgerðum verið beitt, nema þeirri að skera burt sjálft meinið.“

Sigmar segir að lokum að venjulegar fjölskyldur séu að kikna undan þessu vaxtaokri og verðbólgubrjálæði.

„Þær draga sam­an segl­in, neyta sér um út­gjöld, sum­ar­frí og jafn­vel nauðsynj­ar til að bregðast við. Versti óvin­ur þess­ara fjöl­skyldna er sá póli­tíski veru­leiki að stjórn­völd annaðhvort sjá þetta ekki eða koma sér ekki sam­an um aðgerðir. Í stað þess að fara bet­ur með pen­inga al­menn­ings í rík­is­rekstr­in­um er ríkið rekið með halla ár eft­ir ár sem er auðvitað ekk­ert annað en olía á verðbólgu­bálið. Þjóðsag­an um strút­inn er raun­veru­leiki rík­is­stjórn­ar­inn­ar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt