Duncan Edwards lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu klifurslysi fyrir sjö árum síðan en í fyrra varð hann hluti af fyrsta þriggja manna teymi fatlaðra garpa sem komst á topp Hvannadalshnjúks.
Frásögn Edwards birtist í breska blaðinu Guardian í dag en þar segist hann, sem var reyndur fjallamaður á árum áður, strax hafa orðið áhugasamur um ferðina þegar félagi hans Niall McCann hafði samband og bauð honum að slást í för með sér og Ed Jackson. Allir áttu ævintýramennirnir það sameiginlegt að hafa lamast af slysförum. McCann braut á sér bakið eftir svifflugsslys og Jackson, sem er fyrrum atvinnumaður í rúgbí, hálsbrotnaði árið 2017.
„Ég hugsaði strax um hversu auðveldari þessi för væri ef ég gæti gengið,“ segir Edwards í greininni. Hann segir að þremenningarnir hafi lent í krefjandi veðri á meðan leiðangrinum stóð og mjög hafi reynt á samvinnu þeirra til þess að vega upp á móti þeim erfiðuleikum sem fötlun þeirra olli.
„Þetta var erfiðasta áskorun lífs míns,“ segir Edwards í greininni.
Þremenningarnir gerðu ráð fyrir að ferðin upp á topp tæki fjóra daga en strax þegar 10 mínútur voru liðnar fann Edwards hversu þreyttur hann var orðinn af því að draga búnaðinn á eftir sér á sérsmíðaða sleðanum sem hann notaði í leiðangrinum. Hann gafst þó ekki upp heldur ýtti sér hægt og rólega áfram, „fjær siðmenningunni en nær manninum sem hann eitt sinn var,“ eins og hann orðar sjálfur.
Ferðin reyndi gríðarlega á en á toppinn komust þeir og segir Edwards að hann hafi upplifað mikið tilfinningaflóð þegar áfanganum var náð. „Ég áttaði mig á því að þrátt fyrir alla erfiðleikanna sem ég hafði upplifað, áskoranirnar og bakslögin, þá hefði ég sagt nei við því að fá mátt í fæturnar aftur ef einhver hefði boðið mér það,“ segir Edwards. Ekkert hafi jafnast á við þessa sigur- og gleðitilfinningu eftir allt sem hann hafi þurft að ganga í gegnum.
„Þessi stund á Hvanndalshnjúki hafði áhrif á allt mitt líf og sýn mína á það. Ég lít ekki lengur svo á að ég sé fatlaður. Fyrst að ég komst á toppinn Hvannadalshnjúk þá get ég tekist á við önnur vandamál í lífi mínu. Slysið breytti lífi mínu en í mínu tilviki var það til hins betra,“ segir hann.
Ævintýrið á Íslandi hefur hvatt hann til dáða og greinir Edwards frá því að í desember ráðgeri hann að skíða á sleðanum sínum að Suðurpólnum sjálfum.