Bloggarinn Páll Vilhjálmsson hefur tvær vikur til að birta niðurstöðukafla og dómsorð úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í gær, þar sem Páll var fundinn sekur um brot gegn friði, æru og persónu blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar. Eins þarf Páll að fjarlægja ómerkt ummæli af bloggi sínu að viðlögðum dagsektum, og greiða Aðalsteini 450 þúsund króna miskabætur og 1,4 milljón í málskostnað.
Umþrætt ummæli í málinu innihalda flest fullyrðingar um að Aðalsteinn hafi gerst sekur um aðild að því að eitra fyrir skipstjóranum Páli Steingrímssyni. Það þó svo að lögregla hafi opinberað að ekkert slíkt sé til rannsóknar heldur er Aðalsteinn einn fimm blaðamanna sem grunaðir eru um friðhelgisbrot, eða meint brot gegn friðhelgi einkalífs.
Nú hefur Páll Vilhjálmsson í annað sinn verið fundinn sekur um friðhelgisbrot sjálfur, brot gegn friði, æru og persónu Aðalsteins en áður var Páll fundinn sekur um sambærileg brot gagnvart Þórði Snæ Júlíussyni og Arnari Þór Ingólfssyni, ritstjóra og blaðamanni Heimildarinnar.
Dómari fann í gær að því að Páll væri að halda fram alvarlegum ásökunum án þess að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum, en Páll hafi ekki náð að sanna sannleiksgildi ummæla sinna eða að hann hafi lagt þau fram í góðri trú.
Sagði dómari í niðurstöðu sinni:
„Enda þóttt stefnandi [Aðalsteinn] sé verðlaunablaðamaður og þjóðþekktur vegna starfa sinna þýðir það ekki að hann þurfi að þola að vera sakaður opinberlega um alvarlegt refsivert brot án þess að réttmætt tilefni hafi verið til að setja fram slíkar staðhæfingar. Breytir engu í því efni þótt ummælin sem um ræðir hafi fallið í umræðu um mikilvægt þjóðfélagsmálefni en stefnda var í lófa lagið að tjá sig með öðrum og hófstilltari hætti.“
Páll bloggaði í morgun en ekki til að birta niðurstöðukafla dómsins heldur þvert á móti til að gagnrýna niðurstöðu dómara, lýsa því yfir að málinu verði áfrýjað og svo til að vísa á bankareikning sinn, ef lesendur hafi hug á að leggja honum lið.
Niðurstaða dómara er að mati Páls aðför að tjáningarfrelsi og málsókn Aðalsteins tilraun til þöggunar. Meiðyrði sé teygjanlegt hugtak og þætti Páli eðlilegra að taka meiðyrðamál til skoðunar eftir að ljóst væri hvort að Aðalsteinn yrði ákærður eða ekki.
Auk þess segir Páll að komnar séu fram upplýsingar sem geti útilokað „aðildarleysi blaðamanna“:
„Ef blaðamenn RSK-miðla [Sameiginlegt viðurnefni sem Páll gaf RÚV, Stundinni og Kjarnanum] eru saklaus englakór sem tilfallandi hefur haft fyrir rangri sök verður beðist afsökunar og tilfallandi étur ofan í sig fyrri orð. En nú þegar eru komnar fram þær upplýsingar að útiloka má aðildarleysi blaðamanna. Ef sakborningarnir bera engar eða óverulegar sakir væru þeir fyrir löngu búnir að leggja spilin á borðið, útskýra sína aðkomu að málinu. Tilfallandi hefur lesið lögregluskýrslur yfir sakborningum; þeir tala eins og harðsvíraðir afbrotamenn, neita öllu sem á borð er borið og hafna samvinnu við lögreglu að upplýsa málið. Heiðarlegt fólk aðstoðar lögreglu að upplýsa afbrot.“
Þó að bloggarinn taki ekki jafn djúpt í árina og í fyrri færslum í málið kemur hann því skýrt á framfæri að hann telur Aðalstein sekan um glæp og segist Páll byggja það mat sitt á rannsóknargögnum sem hann hafi lesið. Hann birtir þó ekki gögnin. Í dómi Héraðsdóms í gær kom fram að í minnst einni færslu hafi Páll farið fram með beinar lygar þegar hann vitnaði í heimildir sínar. Hann hafði það eftir saksóknara á Norðurlandi að ákæra yrði gefin út innan tveggja vikna. Sá sami saksóknari kom þó að fjöllum þegar sú fullyrðing var borin undir hann og sagðist ekkert slíkt hafa sagt.
Þórður Snær ætti í það minnsta ekki að vera hissa á færslu Páls í dag en ritstjórinn skrifaði á Twitter í gær að þó Páll hafi þegar verið dæmdur fyrir meiðyrði gegn Þórð þá haldi hann þeim bara áfram.
„Það má ekki ljúga fjarstæðukenndum glæpum upp á fólk. Hann bloggar um mig oft í viku, og hefur gert árum saman. Ég gæti farið í mál við hann flesta þriðjudaga og fimmtudaga. En hann tvíeflist. Ætlar bara að ljúga enn meira.“