Þetta sagði Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, í samtali við CNN í tilefni af því að hann fundar með Joe Biden, Bandaríkjaforseta, síðar í vikunni.
Kishida sagði að vegna stríðsreksturs Rússa í Úkraínu og stöðunnar í Miðausturlöndum og Austur-Asíu standi heimsbyggðin á „sögulegum tímamótum“. Af þeim sökum hafi Japanar ákveðið að styrkja her sinn og breyta öryggisstefnu sinni.
Hann sagði að samtarf Japan og Bandaríkjanna verði enn mikilvægara í framtíðinni en það er nú.
Frá því að hann tók við embætti 2021 hafa Japanar breytt afstöðu sinni til hers landsins og vinna nú að því að styrkja hann og efla á allan hátt. CNN segir að þetta feli í sér möguleika til að bregðast harðar við ef ráðist verður á japanskt landsvæði.
Kínverjar hafa lýst yfir áhyggjum af þessari stefnubreytingu Japana en á sama tíma eru þeir að efla her sinn og hnykla vöðvana gagnvart mörgum nágrönnum sínum.