Tólf ára finnskur drengur er í haldi lögreglu þar ytra grunaður um að hafa myrt bekkjafélaga sinn og sært að minnsta kosti tvö önnur börn í skotárás í skóla. Barnið sem dó lést samstundis samkvæmt yfirlýsingu lögreglu en hin tvö liggja þungt haldinn á sjúkrahúsi.
Skotárásin átti sér stað laust fyrir klukkan níu að staðartíma í borginni Vantaa, sem er rétt fyrir utan Helsinki, í morgun. Um var að ræða grunnskóla þar sem 800 börn stunda nám en starfsmenn eru um 90 talsins.
Barnið sem er grunað um skotárásina flúði af vettvangi fótgangandi en náðist á hlaupum skömmu síðar. Lögregla hefur gefið það út að skotvopnið, sem talið er að hafi verið notað, sé í eigu ættingja barnsins.
Ekki liggur fyrir hver var kveikjan að árásinni en barnið verður yfirheyrt á næstunni og að því loknu munu félagsmálayfirvöld taka við keflinu.
Óhætt er að fullyrða að Finnar séu í losti yfir árásinni. Finnskir fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum um hryllinginn og hafa verið að birtast viðtöl við foreldra sem lýsa því hvernig skelfingu lostin börn þeirra hringdu til foreldra sinna í leit að hjálp.
Forsetisráðherra landsins, Petteri Orpo, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist vera í áfalli yfir tíðindunum og að hugur hans sé með fórnarlömbum, ættingjum þeirra sem og starfsfólki og nemendum skólans þar sem hinn hræðilegi atburður átti sér stað.