„Silki er kona sem póstar miklu efni um eldgosið á Reykjanesi. Hún hefur enga þekkingu á efninu sem hún fjallar um og notar oft falsaðar ljósmyndir af sprungum og þess háttar og talar um að Ísland (allt landið) sé í mikilli hættu og landið okkar gæti orðið annað White Island sem gaus fyrirvaralítið, nálægt Nýja Sjálandi, þar sem fjöldi ferðamanna fórst.“
Svona hefst færsla í Facebook-hópnum Jarðsöguvinir – Friends of Historical Geology. Í hópnum eru tæplega 15 þúsund meðlimir og eins og nafnið bendir til þá koma margar færslur þar inn tengdar eldgosum og jarðhræringum á Reykjanesi.
YouTube-síðan sem maðurinn varar við ber nafnið On The Pulse With Silki eða sem mætti útleggja á íslensku, Með puttann á púlsinum með Silki. Síðan er með um 31700 fylgjendur og hefur Silki birt 131 myndband. Síðustu sjö daga hefur hún birt 12 myndbönd, þar af tíu um eldsumbrot og afleiðingar þeirra á Reykjanesi.
Maðurinn sem setur færsluna inn segir umfjöllun konunnar skaðlega og segist hann hafa tilkynnt hana til YouTube og fengið svar frá þeim í tölvupósti um að málið yrði skoðað af hálfu samfélagsmiðilsins.
„Ég skora á fólk að skoða bullið í henni og tilkynna hana. Þessi óværu þarf að banna á þessum miðli, því vitað er að svona umfjallanir eru skaðlegar,til dæmis ferðaþjónustunni. Íslenskur YouTube-ari sem kallar sig Laufabrauð, er duglegur að fletta ofan af bullinu og falsinu hennar, en það virðist ekki duga til.“
Nýjasta myndband Silki er birt í gær, 1. apríl, og segir Silki eldgosið vera að breyta landslaginu.
Silki er einnig með síðu á X og má segja að fyrirsagnir færslna hennar þar séu til að vekja óhug meðal lesenda:
ICELAND DISASTER: LATEST UPDATE VIDEO HERE
ICELAND: Will Tourists have to die again ? White Island in New Zealand was a deadly Disaster. Iceland does not seem to learn from it !
ICELAND DISASTER: Are tourists fed up with Iceland?
Á X er síða Silki merkt sem Media & News Company, það er fréttastofa. En litlar upplýsingar er að finna um konuna með aðstoð Google. Á vefsíðunni www.buymeacoffee.com þar sem styrkja má Silki með því að kaupa rafrænan kaffibolla segist hún vera að safna fé fyrir hestabúgarð sinn sem þurfi viðgerða við eftir nýlegt óveður, auk þess sem verð á heyi sé hátt. Vilji hún því nota þennan vettvang og YouTube rás sína til að safna fé fyrir sig og dýrin.
Í athugasemd við færsluna í Jarðsöguvinir segir einn karlmaður að Silki taki sérstaklega fram að hún sé ekki jarðfræðingur og því séu þeir sem vilji taka hana og YouTube-síðu hennar einfaldlega að sýna hatur sinn í hennar garð.
Færsluhafi setur þá inn myndir úr myndböndum Silki, sem gerðar eru með gervigreind og sýna ástandið á Reykjanesskaga og í Grindavík með kolrangri mynd.“Hún er vísvitandi að falsa myndir (photoshop) og bullið í henni er algjörlega ósambærilegt við umfjallanir íslenskra jarðfræðinga, sem vissulega þurfa oft að giska á framvindu mála.“
Segir maðurinn umfjallanir Silki skaða ferðamannaiðnaðinn og íslenska hagkerfið.
„Hún er viljandi að ljúga og photoshopa myndir. Fólk er að hætta við ferðir til Íslands vegna hennar og annarra sem ekkert vita og embættismenn hafa áhyggjur af því.“
Annar maður setur neðangreinda athugasemd við myndband Silki og svar hennar sem dæmi. Í athugasemdinni segir: „Ég er sammála þér Silki. Treystu á okkur sjálf og almenna skynsemi og gerum okkar eigin rannsóknir í stað þess að gera ráð fyrir að aðrir viti hvað er að gerast og séu að hugsa um okkur.“ „Já akkúrat,“ svarar Silki.
Á YouTube-síðunni Laufabrauð hefur eigandi síðunnar birt sjö myndbönd til að reyna að vinda ofan af lygum og misvísandi myndböndum Silki.
„Ég er kominn aftur til að staðreyna myndbönd Silki og gefa ykkur upplýsingar frá sjónarhorni þess sem býr á Íslandi og þekkir til mála. Hún notar Google Translate til að lesa fréttirnar hér.“
Í myndbandinu fer Laufabrauð yfir myndirnar sem Silki birti og sagði teknar inn í íþróttahúsinu í Grindavík. Nokkuð augljóst er að myndirnar eru gerðar með gervigreind (AI) og á nokkrum þeirra eru raunverulegar myndir, einstaklingar, settir inn á myndirnar sem gerðar eru með gervigreind.