Maður sem býr í Asparfelli hefur undanfarna daga birt myndbönd af börnum á leikskóla við heimili hans og viðhaft ógnvekjandi ummæli um börnin. Orðræða mannsins einkennist af útlendingahatri en hann segir undir einu myndbandinu:
„Erlendir krakkar eru farnir að tala blygðunarlaust útlensku á götunum. Þegar þeir komu hingað þá voru þeir svolítið hógværir og héldu sínum siðum í leynum en núna eru þeir farnir að gera þetta algengt og ætla að láta mann sætta sig við þennan djöfulsins viðbjóð. Ég er ekki ánægður með þetta. Ég mun aldrei sætta mig við þennan helvítis djöfulsins andskotans viðbjóð.“
Í öðru myndbandi amast maðurinn við því að erlendur maður sinni börnunum á leikskólanum.
Á Facebook-síðu sinni viðhefur maðurinn ýmis ummæli um útlendinga, til dæmis þessi: „Útlendingar eiga ekki að misskilja góðmennsku okkar sem veikleika.“
Í einum Facebook-hópi þar sem framferði mannsins er til umræðu segir maður einn frá því að barnið hans sé á einu myndbandanna.
DV hafði samband við lögreglustöð 3 hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en Breiðholt heyrir undir það umdæmi. Fengust þær upplýsingar að málið hefði ekki komið inn á borð lögreglu.
Ekki náðist samband við manninn sjálfan við vinnslu fréttarinnar.