Greint var frá því um helgina að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á TM fyrir 28,6 milljarða króna. Ríkið er sem kunnugt er eigandi Landsbankans en Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði á Facebook-síðu sinni í gær að þessi viðskipti verði ekki að veruleika með hennar samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.
Sjá einnig: Þórdís Kolbrún: „Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki“
Inga gerir málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir:
„Hvað er um að vera? Einhver bankastjóri að sveifla 28,5 milljörðum króna í kaup á tryggingafélagi af KVIKU banka. Hvernig stendur á því að Kviku banki skuli vilja selja aðra eins gullgæs eins og gefið er í skyn að TM sé? Við EIGUM Landsbankann íslenska þjóðin og það væri nær að þessi ágæti bankastjóri sæi sóma sinn í því að lækka okurvexti á íbúðarlán heimilanna fyrir 28,5 milljarða króna en að gambla með þá í kaup á tryggingafélagi. Gaman væri að vita hvaða PLOTT sé nú í gangi.“
Inga gerir orð Þórdísar Kolbrúnar einnig að umtalsefni þess efnis að viðskiptin verði ekki að veruleika nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.
„Já, var það ekki? Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki una sér hvíldar fyrr en honum hefur tekist að selja allt sem við eigum og virkilega skilar okkur stórkostlegum ágóða í ríkiskassann. Vinir og vandamenn eiga ekki orðið nóg af auðæfum okkar, þeir þurfa að eignast það allt.“