fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Embætti landlæknis miðlaði persónuupplýsingum starfsmanns Landspítalans í leyfisleysi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 15. mars 2024 13:30

Alma Möller, landlæknir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Persónuvernd hefur birt úrskurð sinn í máli sem maður nokkur beindi til stofnunarinnar. Kvartaði hann yfir því að embætti landlæknis hefði miðlað persónuupplýsingum hans til félagasamtaka, sem höfðu komið ábendingum á framfæri við embættið um meðferð sjúklinga á því sviði Landspítalans sem maðurinn starfaði á, einkum með því að upplýsa samtökin um að hann væri kominn í ótímabundið leyfi. Persónuvernd hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að meðferð embættis landlæknis á persónuupplýsingum mannsins hefði verið í samræmi við lög. Stofnunin tók hins vegar málið upp að nýju í kjölfar nýrra upplýsinga og ábendinga frá umboðsmanni Alþingis og hefur nú snúið fyrri niðurstöðu sinni í málinu við.

Í úrskurðinum kemur fram að sú niðurstaða Persónuverndar í fyrri úrskurðinum að meðferð embættis landlæknis á persónuupplýsingum mannsins hefði samræmst persónuverndarlögum hefði verið byggð á því að embættið hefði viðurkennt að félagasamtökin hefðu aðild að því eftirlitsmáli sem hófst í kjölfar ábendinga þeirra. Með miðlun upplýsinganna hefði embætti landlæknis þannig leitast við að virða lögbundinn upplýsingarétt félagasamtakanna samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Fyrri úrskurðurinn í málinu féll í desember 2022.

Hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti

Í þessum nýja úrskurði segir að maðurinn hafi í kjölfarið snúið sér til umboðsmanns Alþingis sem hafi í ágúst 2023 komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu legið fyrir fullnægjandi upplýsingar til að slá því föstu að umrætt eftirlitsmál hjá embætti landlæknis, sem hófst í kjölfar ábendinga félagasamtakanna, hefði talist stjórnsýslumál eða mál sem lyti ákvæðum stjórnsýslulaga. Taldi umboðsmaður að þar sem Persónuvernd hefði ekki kannað á hvaða lagagrundvelli landlæknir fór með ábendingar félagasamtakanna, og þar með hvort málið hefði verið lagt í þann farveg að til greina hafi komið að ljúka því með stjórnvaldsákvörðun hafi fyrri úrskurður Persónuverndar í málinu ekki verið reistur á fullnægjandi grunni þegar kom að rannsóknarskyldu stofnunarinnar. Beindi umboðsmaður því til Persónuverndar að taka málið fyrir að nýju ef maðurinn myndi óska eftir því.

Maðurinn gerði það í september 2023.

Féllst Persónuvernd á að taka málið fyrir að nýju ekki síst á þeim grunni að stofnunin hefði í fyrri úrskurðinum lagt annan skilning í valdsvið sitt en umboðsmaður Alþingis þegar kemur að endurskoðun á ákvörðunum annarra stjórnvalda varðandi aðild að stjórnsýslumálum.

Í úrskurðinum segir um sjónarmið mannsins að hann telji að miðlun embættis landlæknis á persónuuuplýsingum hans til félagasamtakanna hafi verið ólögmæt. Upplýsingarnar um ótímabundið leyfi hans hafi verið settar fram líkt og um væri að ræða tiltekin viðurlög vegna þess sem fram kom í ábendingum félagasamtakanna til embættisins. Þá vísaði hann til þess að samtökin hafi ekki átt aðild að því máli sem embætti landlæknis tók til meðferðar í kjölfar ábendinga þeirra.

Vildi maðurinn einnig meina að upplýsingarnar hefðu verið trúnaðarupplýsingar og byggði það á ákvæðum upplýsingalaga um að réttur almennings til aðgangs að gögnum frá hinu opinbera, samkvæmt þeim lögum, nái ekki til mála um umsóknir um starf, framgang í starfi og starfssamband viðkomandi að öðru leyti.

Óhjákvæmilegt að veita upplýsingarnar

Um sjónarmið embættis landlæknis segir meðal annars í úrskurðinum að það hafi vísað til lagaskyldu sinnar um að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu í landinu. Miðlun á persónuupplýsingum mannsins til samtakanna hefði byggt á stjórnsýslulögum og þá einkum reglum þeirra um upplýsingarétt og leiðbeiningarskyldu. Samtökin hefðu komið fram í umboði félagsmanna sinna, notenda og starfsmanna viðkomandi sviðs Landspítalans, og því átt hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Miðlunin hafi verið óhjákvæmileg þar sem ábendingar samtakanna hefðu einkum beinst að stjórnun þeirrar deildar sem maðurinn stýrði á Landspítalanum.

Þegar málið var tekið upp að nýju veitti embætti landlæknis þær upplýsingar að ekki hafi verið litið á ábendingarnar sem formlega kvörtun og því ekki um að ræða mál sem lyki með stjórnvaldsákvörðun, á grunni stjórnsýslulaga, heldur mál sem rekið hefði verið eftir þeirri lagaskyldu embættisins að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Hins vegar hefði verið talið rétt að upplýsa samtökin um að maðurinn hefði verið kominn í leyfi þar sem félagsmenn þeirra gætu átt erfitt með að leggja sjálfir fram kvörtun.

Nýjar upplýsingar landlæknis breyttu öllum forsendum

Þessa nýju upplýsingar breyttu forsendum fyrri niðurstöðu Persónuverndar. Er það niðurstaða stofnunarinnar að þar sem ekki hafi verið um stjórnsýslumál að ræða sem ljúka hafi átt með stjórnvaldsákvörðun sé ljóst að samtökin ættu ekki rétt á aðgangi að umræddum persónuuupplýsingum um manninn, á grundvelli stjórnsýslulaga eins og embætti landlæknis hefði vísað til þegar málið kom fyrst upp.

Embætti landlæknis hafi heldur ekki borið skylda til að veita félagasamtökunum upplýsingar um leyfi mannsins samkvæmt upplýsingalögum þar sem engin skrifleg gögn hafi verið til staðar um það þegar stjórnendur Landspítalans veittu embættinu upplýsingar um að maðurinn væri kominn í leyfi.

Persónuvernd sneri því fyrri úrskurði sínum í málinu við og komst að þeirri niðurstöðu í þetta sinn að miðlun embættis landlæknis á þeim upplýsingum til samtakanna að maðurinn hefði verið sendur í leyfi hefði ekki samræmst lögum um persónuvernd.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt