Ársskýrsla Íslandspósts 2023 var gefin út á aðalfundi félagsins í gær. Niðurstöður skýrslunnar sýna að áframhaldandi áhersla á hagræðingu hefur skilað árangri þrátt fyrir ýmsar áskoranir, eins og segir í tilkynningu.
Mikil samkeppni á pakkamarkaði, stöðug fækkun bréfa, þyngra efnahagsástand og hátt vaxtastig settu strik í reikninginn. Auk þess höfðu jarðhræringar á Reykjanesskaga í för með sér breytingar á póstþjónustu í Grindavík.
Íslandspóstur hagnaðist um 19 m.kr. á síðasta ári samanborið við hagnað upp á 37 m.kr. 2022. Eigið fé félagsins er 3.618 m.kr. Rekstrartekjur námu 7.109 m.kr. og lækkuðu frá fyrra ári þegar þær voru 7.168 m.kr. EBITDA, afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nam 556 m.kr. 2023 og EBITDA-hlutfallið var 7,8%. Árið 2022 nam EBITDA 493 m.kr. eða 6,9%.
Stöðugildum fækkaði um 8% milli ára en þau voru 472 í árslok 2023 samanborið við 513 árið áður.
Íslandspóstur fjármagnar alþjónustu að fullu árið 2023 en greiðsla frá ríkinu barst ekki fyrr en um miðjan mars 2024. Dráttarvextir vegna beinnar fjármögnunar alþjónustuskyldu félagsins námu 19 m.kr.
Undanfarin ár hefur orðið breyting á þjónustu Póstsins á þann veg að pósthúsum hefur sums staðar verið skipt út fyrir póstbox og póstbíla. Á árinu hefur póstboxum fjölgað úr 62 í 90 svo nú eru afgreiðslustaðirnir orðnir 130 í heildina en voru áður 112.
Lögð hefur verið áhersla á að fjárfesta í sjálfvirknivæðingu kerfa þannig að Pósturinn getur afgreitt erlendar skráðar sendingar mun hraðar en áður. Á höfuðborgarsvæðinu eru þær í 92% tilvika afhentar daginn eftir að þær berast, samanborið við 60% í janúar 2022.
Í máli Þórhildar Ólafar Helgadóttur, forstjóra Póstsins, kom fram að samkeppnisumhverfi hans breytist hratt. „Hlutverk Póstsins er þó óbreytt, að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld.“
Hún sagði jafnframt: „Pósturinn eignaðist 16 nýja rafbíla á árinu og hlutfall farartækja sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum er 59%. „Grænar leiðir“ á Reykjanesskaga og Norðurlandi eru einnig til marks um stórstígar framfarir í umhverfismálum hjá Póstinum. Þess má líka geta að öll bréfadreifing er „græn“ á höfuðborgarsvæðinu og að mestu í stærri þéttbýliskjörnum þar sem rafmagnspósthjól eru nýtt við dreifinguna.“