Með ræðu sinni markaði Jill Biden nýjan kafla í kosningabaráttunni. Hún sýndi að hún er reiðubúin til að stíga fram úr skugganum og berjast við hlið eiginmannsins. Aðalverkefni hennar verður að fá konur til að kjósa Joe Biden og um leið afsanna allar fullyrðingar um að hann sé of gamall til að gegna forsetaembættinu en hann er orðinn 81 árs.
Hún á að bakka hann upp á þeim sviðum þar sem hann stendur verst að vígi. Það eru fyrst og fremst aldur hans og lífsþróttur. Hún á að sýna fram á að hann sé fær um að gegna embætti forseta í fjögur ár til viðbótar og þess utan á hún að tala um þau málefni sem höfða sérstaklega til kvenna.
Jill verður í fararbroddi bandalags sem kynnt var til sögunnar í síðustu viku undir nafninu „Women for Biden-Harris“ en það á að laða konur að framboði Biden og Kamala Harris, varaforseta hans. Demókratar hafa mikla þörf fyrir að fá konur til að kjósa þau ef Biden á að geta sigrað Donald Trump í forsetakosningunum í nóvember.
Þegar Jill ávarpaði kjósendur í Atlanta á föstudaginn sagði hún meðal annars: „Ég hef verið svo stolt af hvernig Joe hefur gert konur að miðpunkti stefnu sinnar. En Donald Trump? Hann hefur varið lífi sínu í að brjóta okkur niður og veikja tilverurétt okkar. Hann gerir lítið úr líkama kvenna, virðir ekki frammistöðu okkar og stærir sig af ofbeldi gegn konum.“