Samkvæmt ákæru sló hann fórnarlamb sitt í höfuðið og sparkaði í ökkla hans með þeim afleiðingum að hann hlaut ljótt brot á hægri ökkla og opið sár á vör- og munnholi. Maðurinn var hins vegar sýknaður fyrir að sparka í ökkla mannsins.
Lögreglu barst tilkynning um slagsmál í húsi í Reykjanesbæ seinnipart þessa dags og þegar lögreglumenn komu á vettvang var verið að bera brotaþola út úr húsinu og í sjúkrabíl.
Skýrði fórnarlamb árásarinnar frá því að bankað hefði verið upp á hjá honum og þegar hann kom til dyra hafi hann verið kýldur í andlit og sparkað í fót hans. Komu aðrir íbúar manninum til aðstoðar. Sá sem fyrir árásinni varð sagðist kunna deili á árásarmanninum og vísaði lögreglu á íbúð hans í þessu sama húsi.
Lögregla knúði þar dyra og kom þá í ljós að hinn meinti árásarmaður var sofandi í rúmi sínu. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangaklefa, en ekki reyndist unnt að fá hann til að blása í áfengismæli vegna ölvunar.
Lögregla tók svo skýrslu af fórnarlambinu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en erfiðlega gekk að taka af honum skýrslu sökum tungumálaörðugleika. Hann blés í áfengismæli þar sem sýndi 1,99 prómill.
Árásarmaðurinn skýrði frá því daginn eftir atvikið að nágranninn, brotaþoli í málinu, hefði komið að herbergi hans í hádeginu umræddan dag og sakað hann og sambýliskonu hans um þjófnað. Kvaðst hann, ásamt sambýliskonu sinni, hafa farið að herbergi mannsins síðar um kvöldið til að spyrja hann nánar út í þessar ásakanir.
Þar hafi nágranninn slegið hann í hægra eyra og hann því svarað fyrir sig með því að kýla hann í andlitið. Við það hafi hann fallið í gólfið en hann kvaðst þó ekki hafa sparkað í hann eða veist að honum. Aðspurður kvaðst hann hafa drukkið tæplega hálfan lítra af vodka á tímabilinu frá klukkan fjögur um daginn þar til lögregla hafði afskipti af honum á sjöunda tímanum það kvöld. Fyrir dómi sagðist hann þó ekki hafa verið drukkinn í umrætt sinn en þó drukkið „smá“ áfengi eftir að hann sneri aftur í herbergi sitt.
Sambýliskona árásarmannsins mætti í skýrslutöku hjá lögreglu þar sem hún sagði þau hafa snætt kvöldverð saman. Ákærði hafi svo hafið drykkið og í kjölfarið farið á efri hæðina og það hafi byrjað slagsmál. Konan kvaðst ekki vita ástæðu þess að sambýlismaður hennar fór til mannsins, en hann eigi það til að verða mjög afbrýðisamur þegar hann drekki áfengi. Lýsti konan því að sambýlismaðurinn hennar hafi sakað hana um framhjáhald með manninum sem ráðist var á.
Sagði konan í skýrslutöku að sambýlismaður hennar og nágranni hafi í fyrstu rætt saman en í framhaldinu hafi byrjað slagsmál með því að sambýlismaðurinn kýldi nágrannann í andlitið.
Fyrir dómi sagði konan aðra sögu sem var á þá leið að nágranninn hafi átt upptökin. Þegar hann hafi gert sig líklegan til að slá aftur frá sér hafi hann dottið í gólfið, líklega sökum ölvunar.
Maðurinn sem ákærður var neitaði sök fyrir dómi og sagði brotaþola hafa átt upptökin. Héraðsdómur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að afleiðingar árásarinnar megi rekja til þess er ákærði sló brotaþola í höfuðið minnst einu sinni.
„Í ljósi framburða verður ekki fullyrt að ákærði hafi sparkað í hægri ökkla brotaþola líkt og lýst er í ákæru. Engu að síður var atlaga ákærða til þess fallin að valda brotaþola umtalsverðum líkamsmeiðingum og mátti ákærði ætla, meðal annars í ljósi ölvunarástands brotaþola sem hann kveðst sjálfur hafa gert sér grein fyrir, að atlagan gæti leitt til þess að brotaþoli félli við með þeim afleiðingum sem um getur í ákæru og staðfestir hafa verið með fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Fangelsisdómurinn yfir manninum, sem er fæddur árið 1960, er skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 500 þúsund krónur í miskabætur og laun verjanda síns, 790 þúsund krónur.