Félag atvinnurekenda krafði Alþingi svara um vildarpunktanotkun þingmanna og annarra ríkisstarfsmanna. Umræðan um vildarpunktanna er ekki ný af nálinni en til dæmis hefur flugfélagið PLAY harðlega gagnrýnt fyrirkomulagið sem gerir ríkisstarfsmönnum kleift að safna punktum á eigin persónu vegna vinnuferða sem greiddar eru úr ríkissjóð. Þar með sé verið að skapa freistnivanda fyrir opinbera starfsmenn sem valdi því að frekar sé valið að fljúga með Icelandair en öðrum flugfélögum.
Félag atvinnurekenda greinir nú frá svörum Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn þeirra. Birgir hafi farið þá leið að svara ekki efnislega þeim spurningum sem beint var til hans, og segir ekki í sínum verkahring að meta hvort að nýting þingmanna á vildarpunktum, kostuðum af skattpeningum, sé í samræmi við lög og siðareglur.
Birgir svarar ekki heldur hvort hann líti sem svo á að fyrirkomulagið sé skynsamlegt, siðlegt og líklegt til að stuðla að ábyrgri nýtingu skattpeninga.
Tók Birgir þó fram að um nú standi yfir vinna við endurskoðun laga um þingfarakaup alþingismanna og þingfarakostnað. Í þessari endurskoðun sé tekið fyrir hvort almenn fyrirmæli ráðherra um ferðakostnað á vegum ríkisins gefi tilefni til að endurskoða reglur.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, lætur hafa eftir sér í grein á vef samtakanna að betur hefði farið á því að Birgir hefði verið skýrari í svörum sínum.
„Burtséð frá því að vildarpunktar, sem þingmenn geta notað í eigin þágu, búa til freistnivanda að beina viðskiptum til ákveðinna fyrirtækja, er það einfaldlega spilling og stenzt engin siðferðileg viðmið að alþingismenn geti notað í eigin þágu fríðindi, sem fengust vegna ferða sem skattgreiðendur kostuðu. Slíkt er svo augljóst að forseti Alþingis ætti að sjálfsögðu að taka af skarið og lýsa því yfir að slíkt sé ótækt og verði ekki liðið. Hins vegar er jákvætt að umræðan um þetta mál hafi orðið til þess að þingið íhugi að endurskoða reglurnar og taka fyrir þessa vildarpunktasöfnun þingmanna í eigin þágu. Það verkefni þolir ekki mikla bið.“