Mbl.is skýrir frá þessu og hefur þetta eftir Benedikt Ófeigssyni, fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni.
Reikna má með að það gjósi á þriggja til fjögurra vikna fresti á Reykjanesskaga á næstu mánuðum en síðasta gos var fyrir 18 dögum.
Hvað varðar fyrirvara goss, þá gæti hann orðið undir hálftíma. „Fyrirvararnir hafa tilhneigingu til þess að verða veikari og veikari. Þess vegna höfum við bent á að fyrirvararnir geti minnkað og jafnvel við vondar aðstæður orðið mjög litlir og jafnvel illa sjáanlegir,“ er haft eftir Benedikt.
Hann sagði að frá síðasta gosi hafi um 10 milljónir rúmmetra af kviku flætt inn í kvikuganginn undir Svartsengi. Svo virðist sem hann taki ekki við meira magni. Ef innflæðið í kvikuganginn haldi áfram á sama hraða má því búast við að það gjósi á næstu dögum.
Reikna má með að magn kviku í kvikuganginum verði orðið jafn mikið á morgun og það var þann 8. febrúar þegar síðasta gos hófst.
Hvað varðar staðsetningu goss sagði Benedikt að líklegast sé að það verði fyrir miðju, við Sýlingarfell eða á milli Sýlingarfells og Hagafells. Ekki sé útilokað að það gjósi sunnar eða norðar. „Ég vil einmitt vara við því að þetta getur farið alla leið suður að Hagafelli og inn fyrir varnargarðana í Grindavík,“ sagði hann en benti jafnframt á að það sé ólíklegt að það gjósi í byggð og enn ólíklegra að það gjósi úti á hafi.