Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Þorvaldi að skjálftahrina á þessu svæði á síðustu dögum sé merki um að eldstöðvakerfið sem er kennt við Brennisteinsfjöll hafi virkjast. Hann sagði hugsanlegt að skjálftarnir að undanförnu séu tilkomnir vegna spennuuppbyggingar neðst í jarðskorpunni en einnig geti þeir verið merki um kvikusöfnun á skilum deigu og stökku skorpunnar þarna fyrir neðan.
Hann sagði ekki útilokað að hraun frá þessu svæði renni nærri Reykjavík og jafnvel enn lengra en í síðustu goshrinu þar. Hann sagðist telja mjög mikilvægt að ráðast af alvöru í fyrirbyggjandi aðgerðir og áætlanir. „Og það þýðir ekkert að setja það á sem eitthvert aukaverkefni,“ sagði hann.
Hann benti á að þegar það gaus síðast svona norðarlega á Brennisteinsfjallareininni hafi hraun runnið næstum því út í sjó við Straumsvík.