fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Umboðsmaður atyrðir Vinnumálastofnun fyrir seinagang – Hundsuðu beiðnir í rúmt ár því tölvan sagði nei

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 16. janúar 2024 13:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óviðunandi dráttur varð á afgreiðslu á beiðnum um endurútreikning hlutabóta. Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis sem slær á fingur Vinnumálastofnunar og segir stofnuna hafa brugðist skyldum sínum með því að upplýsa ekki umsækjendur um þann drátt sem varð á úrvinnslu beiðna þeirra, sem og ástæður hans.

Umboðsmaður rekur að í febrúar árið 2022 hafi úrskurðarnefnd velferðarmála komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem greiðslan var innt af hendi. Vinnumálastofnun hafi svo upplýst í maí sama ár að þeir sem hefðu fengið greiddar hlutabætur á árunum 2020 og 2021 gætu átt rétt á endurútreikningi vegna framangreinds. Í sama mánuði tók Vinnumálastofnun til notkunar nýtt tölvukerfi sem reyndist svo ekki duga til að framkvæma þennan endurútreikning. Leiddi þetta til þess að beiðnir um slíkt fengu ekki afgreiðslu fyrr en um ári síðar.

Umboðsmaður leitaði svara hjá stofnuninni um málið. Þá einkum hvort að téð tölvukerfi hafi verið nægilega prófað áður en það var tekið í gagnið. Eins vildi Umboðsmaður vita umfang þeirra tafa sem urðu á afgreiðslu mála sökum innleiðingar á þessu nýja kerfi og hvort eitthvað hafi staðið því í vegi að nota aðrar leiðir til að ljúka málum innan fullnægjandi tíma. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi stofnunin ekki svarað því hvort nokkuð hafi verið því til fyrirstöðu að endurútreikningur bótanna yrði framkvæmdur með öðrum hætti en með notkun tölvukerfis stofnunarinnar.

Síðasta liðinn þurfti Umboðsmaður að ítreka við stofnunina en fékk engu að síður ekki viðhlítandi svar, en tæplega 300 beiðnir um endurútreikning sátu á hakanum hjá Vinnumálastofnunum mánuðum saman.

Aðfinnsluvert og óviðunandi dráttur

Í samantekt um niðurstöðu álitsins segir:

„Að áliti umboðsmanns var sá dráttur sem varð á afgreiðslu Vinnumálastofnunar í þessum málum ekki í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Einnig væri aðfinnsluvert að stofnunin hefði ekki afgreitt þær beiðnir sem að hennar mati var augljóst að uppfylltu ekki skilyrði fyrir endurútreikningi eða voru tilhæfulausar. Þá hefði Vinnumálastofnun borið að upplýsa um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málanna, af hverju þær stöfuðu og hvenær mætti vænta niðurstöðu, en því var ekki sinnt.“

Um er að ræða frumkvæðisathugun sem var unnin í kjölfar kvörtunar sem umboðsmanni barst í nóvember árið 2022. Sá sem kvartaði hafði óskað eftir endurútreikningi í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála. Við meðferð kvörtunar fengust þær skýringar frá Vinnumálastofnun að allir sem fengu hlutabætur 2020 og 2021 hafi verið sent tölvubréf í maí 2022 þar sem þau voru upplýst um mögulegan rétt sinn á endurútreikningi. Sökum innleiðingar á nýju tölvukerfi hafi orðið töluverðar tafir á úrlausnum mála, en tölvukerfið bauð ekki upp á slíkan endurútreikning og ákvað stofnunin að bíða þess að slíkur möguleiki væri í boði.

Umboðsmaður rakti að þarna hafi aðstæður alfarið verið Vinnumálastofnun að kenna. Tölvukerfið hafi valdið því að engar beiðnir um endurútreikning fengu afgreiðslu fyrr en í apríl árið 2023 og fengu umsækjendur engar skýringar á þessum töfum. Ekki hafi Vinnumálastofnun gefið fullnægjandi skýringar á því að ekki hafi verið hægt að vinna málin með öðrum hætti en að bíða þess að tölvukerfið gæti séð um þetta. Jafnvel í tilvikum þar sem Vinnumálastofnun hafi strax séð að ekki væri grundvöllur fyrir endurgreiðslu, hafi umsækjendur engin svör fengið. Það hefði verið stofnuninni í lófa lagið að afgreiða slíkar beiðnir jafnóðum.

Í niðurstöðu álitsins segir Umboðsmaður:

„Einnig tel ég aðfinnsluvert að stofnunin hafi ekki gert reka að því að afgreiða þær beiðnir sem hún taldi ekki uppfylla skilyrði fyrir endurútreikningi. Þá tel ég að Vinnumálastofnun hafi borið að tilkynna aðilum um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu mála þeirra […] Þeim tilmælum er beint til Vinnumálastofnunar að hafa framvegis þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu í huga í störfum sínum. Félags- og vinnumarkaðsráðherra er sent afrit af álitinu til upplýsinga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt