Snjókornið 2023 sem var til sölu í verslunum A4 fyrir jólin skilaði tveimur milljónum króna til Samhjálpar. A4 hefur frá árinu 2019 safnað öllu plasti sem fellur til hjá fyrirtækinu yfir árið og fengið Plastplan, sprotafyrirtæki í hönnun og plastendurvinnslu, til að endurvinna það í formi nytjahluta. Í fyrra var svo hannað snjókorn og gefið starfsfólki. Í ár var þetta fallega jólaskraut síðan verið virkjað til að aðstoða og gleðja og að þessu sinni rann söluandvirðið allt til Samhjálpar.
„Við erum þakklát fyrir samstarfið við A4 og þeirra framlag og þátttöku almennings í þessu umhverfisvæna og skemmtilega verkefni,“ segir Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar. „Þetta er hvetjandi og ánægjulegt og gefur fólki færi á að sýna hlýhug í verki.“
Sigrún Ásta Einarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs A4, segir hugmyndina að Snjókorninu hafa kviknað þegar Plastplan var fengið til að útbúa pakkaskraut til starfsmanna A4 fyrir jólin í fyrra. „Þetta vakti mikla lukku og margir sögðust hafa hengt skrautið á jólatréð hjá sér. Vala Magnúsdóttir, verkefnastjóri, stakk upp á því að við myndum þróa þessa hugmynd og selja til styrktar góðu málefni.“
Vala bætir við að snjókorn hafa orðið fyrir valinu þar sem ekkert snjókorn sé eins. „Og öll erum við einstök. Svo er það líka táknrænt fyrir skjólstæðinga Samhjálpar sem oft þekkja kuldann of vel. Hugmyndin er að fólk geti safnað Snjókornum og notað þau sem pakkaskraut, til að hengja á jólatré eða á grein eða í glugga eins og óróa.“
Nú þegar verkefninu er lokið er ljóst að landsmenn heilluðust af snjókornunum og sameinuðust um að gleðja og styðja skjólstæðinga Samhjálpar.