fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Konu varð dýrkeypt að standa ekki við samning við fyrrverandi eiginmann sinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 15. janúar 2024 12:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt rúmlega fertug kona hefur verið dæmd til að greiða fyrrveradi eiginmanni sínum rúmlega 8,2 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vanefnda á samningi, auk þess að greiða honum 3,5 milljónir króna í málskostnað. Málið snýst um fjárskiptasamning sem hjónin gerðu við skilnað sinn.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Suðurlands þann 11. janúar.

Málsaðilar höfðu gengið í hjúskap 2009 og saman áttu þau tvö börn. Árið 2014 festu þau saman kaup á íbúð. Maðurinn sótti um skilnað árið 2019 og í kjölfarið gerði fólkið með sér fjáskiptasamning. Fasteignin, sem var helsta eign þeirra, kom í hlut konunnar. Maðurinn gerði enga kröfu í fasteignina en það var bundið þeim skilyrðum að börnin myndu klára skólagöngu sína í sama grunnskóla. Í fjárskiptasamningnum kom einnig fram að ef konan myndi flytja í annað sveitarfélag og eignin yrði seld þá ætti maðurinn kröfur í helming af eftirstandandi fé, eftir uppgreiðslu lána tengdum eigninni. Með þessu vildi maðurinn tryggja ákveðinn stöðugleika í lífi barnanna og nálægð sína við þau.

Leyfi til lögskilnaðar var gefið út árið 2020 og fasteignin þinglýst sem eign konunnar. Í febrúar 2022 seldi konan fasteignina og flutti í annað sveitarfélag. Börnin hófu þá nám í öðrum grunnskóla.

Í kjölfarið krafði maðurinn konuna um greiðslu á helmingi af söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Konan hafnaði greiðslu sem leiddi til málshöfðunar fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Fyrir dómi bar konan meðal annars fyrir sig að maðurinn hafi fyrirgert rétti sínum með undirritun skiptayfirlýsingar og hún hafi verið í góðri trú um að maðurinn myndi ekki gera kröfu í söluandvirðið síðar.

Einnig byggði konan á því að fjárskiptasamningurinn hafi falið í sér endanlegt uppgjör milli aðila við skilnað og hún hafi verið í miklu andlega ójafnvægi sem olli því að samningurinn var bersýnilega ósanngjarn fyrir hana. Á þeim grunni taldi konan einnig að ógilda ætti fjárskiptasamninginn að hluta með vísan til ákvæða samningalaga. Taldi konan einnig að samningurinn skerti frelsi hennar til að velja sér búsetu.

Héraðsdómur féllst ekki á neinar af málsástæðum konunnar og taldi fjárskiptasamninginn halda gildi sínu enda hafi konunni verið fullkunnugt um efni hans frá upphafi og fyrir dómi hafi komið fram að skilningur málsaðila á honum væri hinn sami.

Konan var því dæmd til þess að greiða manninum helming söluandvirðis að frádregnum áhvílandi veðskuldum auk málskostnaðar, samtals ríflega 11,7 milljónir króna.

Lögmaður mannsins var Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður konunnar var Rebekka Ósk Gunnarsdóttir lögmaður.

Dóminn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe